Íslands- og bikarmeistararnir óvænt úr leik

Leikmenn og þjálfarateymi Aftureldingar fagnar glæstum sigri í gærkvöldi.
Leikmenn og þjálfarateymi Aftureldingar fagnar glæstum sigri í gærkvöldi. Ljósmynd/Afturelding

Afturelding gerði sér lítið fyrir og sló Íslands- og bikarmeistara Hamars úr leik í átta liða úrslitum bikarkeppni karla í blaki að Varmá í gærkvöldi. Urðu lokatölur 3:1.

Afturelding er þar með búin að tryggja sér sæti í undanúrslitum, en úrslitahelgi bikarkeppninnar fer fram í Digranesi 6. til 8. mars.

Hamar byrjaði leikinn betur og virtist ætla að vinna fyrstu hrinu nokkuð þægilega. Afturelding beit hins vegar í skjaldarrendur, náði að jafna í 16:16 og vinna svo hrinuna 25:21.

Afturelding gekk á lagið og vann aðra hrinu 25:19 og staðan var því orðin 2:0. Með bakið upp við vegg vann Hamar þriðju hrinu örugglega, 25:17, og staðan var orðin 2:1.

Heimamenn fundu hins vegar aftur taktinn í fjórðu hrinu, unnu hana 25:20 og þar með leikinn 3:1.

Stigahæstir hjá Aftureldingu var Jakub Grezegolek með 22 stig, Valens Torfi Ingimundarson með 16 stig og Atli Fannar Pétursson með 14 stig.

Stigahæstir i liði gestanna voru Tomek Leik með 18 stig og Rafal Berwald með 17 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert