Erna Sóley Gunnarsdóttir fékk silfurverðlaun í kúluvarpi kvenna á Norðurlandamótinu í frjálsíþróttum sem fer fram í Espoo í Finnlandi í dag.
Erna náði sínum besta árangri á þessu ári þegar hún kastaði 17,63 metra í annarri umferð. Hún náði þar með forystunni í keppninni en Senja Mäkitörmä frá Finnlandi skákaði Ernu í þriðju umferðinni með því að kasta 17,74 metra og það reyndist sigurkastið.
Íslandsmet Ernu innanhúss er 17,92 metrar, sett fyrir tveimur árum, en met hennar utanhúss, einnig frá árinu 2023, er 17,39 metrar.
Daníel Ingi Egilsson keppti síðan síðastur Íslendinga á mótinu í dag. Hann náði sér ekki á strik í langstökkinu, stökk best 7,19 metra, og mátti sætta sig við sjöunda sætið. Daníel hefur stokkið 7,63 metra á þessu ári og Íslandsmet hans utanhúss er 8,21 metrar.
Sander Skotheim frá Noregi varð Norðurlandameistari, stökk 7,83 metra.
Heildarniðurstaða íslensku keppendanna á mótinu í dag var því ein gullverðlaun, ein silfurverðlaun og tvenn bronsverðlaun.