Irma Gunnarsdóttir hreppti bronsverðlaunin í langstökki kvenna á Norðurlandamótinu í frjálsíþróttum innanhúss sem nú stendur yfir í Espoo í Finnlandi.
Irma stökk 6,24 metra og var skammt á eftir tveimur efstu konunum en Taika Koilahti frá Finnlandi stökk 6,31 metra og varð Norðurlandameistari og Tilde Johansson frá Svíþjóð stökk 6,30 metra og fékk silfrið.
Birna Kristín Kristjánsdóttir var svo nálægt verðlaunapallinum því hún varð í fjórða sæti og stökk 6,11 metra.
Irma hefur lengst stokkið 6,45 metra innanhúss, fyrir ári síðan, og Birna 6,30 metra á Stórmóti ÍR í síðasta mánuði. Íslandsmet Hafdísar Sigurðardóttur er 6,54 metrar.
Þar með hafa þrír Íslendingar komist á verðlaunapallinn á mótinu í dag. Baldvin Þór Magnússon vann 3.000 metra hlaup karla á nýju og glæsilegu Íslandsmeti og Aníta Hinriksdóttir fékk brons í 800 metra hlaupi kvenna.
Erna Sóley Gunnarsdóttir keppir þessa stundina í kúluvarpi og Daníel Ingi Egilsson í langstökki en þau eru bæði líkleg til að vinna til verðlauna í sínum greinum.