Dagmar Agnarsdóttir sló í dag sex heimsmet á Evrópumeistaramóti öldunga í klassískum kraftlyftingum sem nú stendur yfir í Albi í Frakklandi.
Dagmar keppir í flokki 70 ára og eldri, í þyngdarflokknum -57 kíló. Hún sló heimsmetið í hnébeygju í flokknum þrisvar, heimsmetið í réttstöðulyftu einu sinni, og heimsmetið í samanlögðum árangri tvívegis, en það er nú 260,5 kíló.
Með þessu er hún orðin heimsmethafi í sínum flokki í hnébeygju, réttstöðulyftu og í samanlögðum árangri. Um leið setti hún Íslandsmet í hnébeygju í þremur aldursflokkum og í samanlögðu í tveimur aldursflokkum.
Dagmar keppir fyrir hönd Kraftlyftingafélags Reykjavíkur og setti í dag sín fyrstu alþjóðlegu met.