Of hrædd til þess að keppa á HM

Mikaela Shiffrin.
Mikaela Shiffrin. AFP/Joseph Prezioso

Bandaríska skíðakonan Mikaela Shiffrin verður ekki á meðal keppenda í risasvigi á heimsmeistaramótinu í alpagreinum sem nú stendur yfir í Salbaach í Austurríki.

Shiffrin, sem er 29 ára gömul, á titil að verja í greininni en hún er ennþá að jafna sig eftir að hafa dottið illa á heimsbikarmóti í Killington í nóvember á síðasta ári.

Við fallið kom gat á kvið hennar og stórsá á skíðakonunni eftir slysið en hún hafði sett stefnuna á að vinna sitt 100. heimsbikarmót í Killington.

Ekki tilbúin andlega

„Til þess að gera langa sögu stutta þá er ég ekki tilbúin andlega,“ skrifaði Shiffrin í færslu sem hún birti á Instagram.

„Ég er ekki á þeim stað sem ég hefði viljað vera og ég er einfaldlega of hrædd til þess að geta gefið mig alla í þetta. Þetta hefur tekið mikið á andlega því ég var orðin mjög spennt fyrir því að keppa í risasvigi á HM,“ bætti skíðakonan við.

Shiffrin er sigursælasta skíðakona sögunnar en hún hefur þrívegis unnið til verðlauna á Ólympíuleikum, fjórtán sinnum hefur hún unnið til verðlauna á heimsmeistaramóti og þá hefur hún 99 sinnum komið fyrst í mark í heimsbikarnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert