Umsjón:
Þá er staðan eftir fyrri keppnisdag loksins komin eins og sjá má í fréttinni hér beint fyrir neðan. Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson þakkar fyrir samfylgdina í dag.
Ísland er í 2. sæti í 3. deild í Evróukeppni landsliða í frjálsíþróttum að loknum 21 keppnisgrein eða að loknum fyrri keppnisdegi mótsins sem fer fram í Tbilisi, höfuðborg Georgíu.
Það er mikið fjör á fjórða Landsmóti UMFÍ 50+ sem haldið er á Húsavík um helgina en það er Héraðssamband Þingeyinga (HSÞ), sem er mótshaldari.
Það að Georgíumenn hafi í alvöru ákveðið að taka að sér að sjá um þetta frjálsíþróttamót er svipað og að ég hefði tekið að mér að fljúga farþegaflugvél milli landa, því það er eitthvað sem ég hef hvorki þekkingu né kunnáttu til að gera - ekki frekar en virðist vera með Georgíumennina að halda þessa ágætu keppni. Úrslitaþjónustan er sú lélegasta sem ég hef orðið vitni að, það er engin klukka á vellinum þannig það er ekki einu sinni hægt að sjá á hvaða tímum sigurvegarar í hlaupum eru. Slökkt var á internettengingum um miðjan dag að því virtist vera geðþóttaákvörðun einhvers vallarstarfsmanns. Kári Steinn kvartaði yfir því að ekki var borð með vatnsglösum í lengri hlaupunum, sem er stórundarlegt í rúmlega 30 stiga hita. Og svona mætti halda áfram nærri endalaust.
Keppt verður í 19 greinum á morgun og þá lýkur keppni í 3. deild EM landsliða. Við fylgjumst með á mbl.is eins og í dag, en athugið að það verður ekki sama vefslóð og í dag á textalýsinguna. Ég er þó ekki farinn enn frá Dinamo leikvanginum í Tbilisi í kvöld. Ég hinkra enn eftir stöðunni eftir þennan fyrri dag og fer ekki fet fyrr en ég hef fengið hana í hendur og komið henni til ykkar lesendur góðir.
Bretinn frá Evrópska frjálsíþróttasambandinu virðist vera að missa kúlið enda ekki erfitt með þessa tómu steypu sem virðist vera í gangi hérna. Ótrúlegt að það sé ekki hægt að klára að koma frá sér þessum úrslitum. Í raun ótrúlegt líka að ég skuli ennþá vera á vellinum að bíða eftir þessu.
Nú vantar breska reiknimeistaranum úrslit úr 1500m hlaupi karla, 400m grindahlaupi karla heyrist mér frekar en 400m hlaupi og svo úr 5000m hlaupi karla þar sem ég hef enn ekki séð nein úrslit. Þegar hann hefur fengið þessi opinberu úrslit í hendurnar frá Georgíumönnunum ætti staðan eftir fyrri keppnisdag að liggja fyrir. Þetta er nú meiri þvælan. Eins gott að það séu einhverjir veitingastaðir opnir hérna inn í nóttina.
Það er einhver náungi frá Bretlandi sem virðist vera frá Evrópska frjálsíþróttasambandinu sem vinnur úr þessu hrafnasparki sem Georgíumennirnir skila af sér. Sá virðist vera orðinn ansi pirraður á því hve illa gengur að klára öll úrslit. Mér heyrðist hann segja að nú vantaði hann aðeins opinber úrslit úr 400m grindahlaupi kvenna og 100m hlaupi kvenna til að geta reiknað stigin og stöðuna eftir fyrri keppnisdag í 3. deildinni. Ég hélt að þau væru löngu komin. Ekki hef ég samt hugmynd um úrslitin í 5000m hlaupi karla ennþá.
Nú þegar allt virtist vera komið í skjalið hjá manninum sem reiknar út stigin, ropaði einhver út sér að búið væri að fylla út úrslitin í kúluvarpi kvenna, sem er frekar skrýtið, því ekki er keppt í kúluvarpi kvenna fyrr en á morgun. Það þarf því væntanlega að reikna þetta allt út aftur eða í það minnsta finna út hvar villan liggur - eða þá villurnar. Sjálfur er ég nú að vera orðinn ansi þreyttur á þessari bið og langar mest til að hverfa bara á braut.
Enn sit ég á vellinum í kolniða myrkri, enda klukkan að nálgast tíu að kvöldi hér í Tbilisi. Fyrir klukkutíma var mér sagt að það væru mesta lagi 30 mínútur þar til staðan eftir fyrri dag lægi fyrir. Ég veit svosem ekki hvernig það á að vera hægt að reikna hana rétt út ef úrslit úr 5000m hlaupi karla liggja ekki enn fyrir. Þessi vinnubrögð Georgíumanna eru með ólíkindum.
Ég held að ég hafi örugglega endað í 2. sæti, því seinni riðillinn hljóp hraðar. En þetta var allt í lagi bara, sagði Aníta Hinriksdóttir í viðtali við mbl.is á Dinamo-vellinum í Tbilisi eftir að hafa hlaupið 800m hlaup á 2:02,70 mín. í 3. deild Evrópukeppni landsliða í frjálsíþróttum. Aníta kom lang fyrst í mark í sínum riðli, sem var fyrri riðilinn í 800m hlaupinu.
Ég hef loksins fengið það staðfest að keppandinn frá Albaníu í B-riðlinum í 800m hlaupi kvenna kom í mark á 2:00,90 mín. Tími Anítu Hinriksdóttur í A-riðlinum sem var 2:02,70 mín. skilaði Anítu því í 2. sætið. Nú á bara eftir að fá úrslit úr 5000m hlaupi karla. Það er ólíklegt að þau detti inn í dag satt best að segja.
Við sjáum hvað setur. Biðin er orðin endalaust eftir staðfestum úrslitum í 800m hlaupi kvenna og svo úrslitum í 5000m hlaupi karla. Þau koma hingað inn um leið og þau berast, í versta falli ekki fyrr en á morgun. Staðan í stigakeppni landsliðanna liggur heldur ekki fyrir, þar sem mótshöldurum hér í Georgíu hefur ekki gengið nægilega vel að halda utan um úrslit og vinna úr þeim. Sjáum hvað setur.
Fyrri keppnisdagur í Evrópukeppni landsliða í frjálsíþróttum fór fram í dag. Ísland keppir í 3. deild eða fjórðu og neðstu deild og stefnir upp um deild. Gunnlaugur Júlíusson ljósmyndari er með frjálsíþróttalandsliðinu í Tbilisi í Georgíu þar sem keppni í 3. deild fer fram um helgina og tók meðfylgjandi myndir.
Nú eru dottin inn úrslit úr tveimur fyrstu greinum dagsins á heimasíðu mótsins ef menn hafa áhuga á því að skoða sleggjukast og kúluvarp karla eitthvað frekar. http://tbilisi2014.com/?page_id=97
Það eru komnar fjórar klukkustundir frá því keppni í B-riðli 800m hlaups kvenna lauk. Samt er ekkert að frétta af úrslitunum. Óskiljanlegt með öllu.
Nú vantar aðeins úrslit úr 5000m hlaupi karla þar sem Kári Steinn Karlsson hljóp og í 800m hlaupi kvenna þar sem Aníta Hinriksdóttir hljóp. Raunar er tími Anítu löngu staðfestur, en óljós í hvaða sæti hún hafnaði þar sem enn vantar úrslitin úr B-riðli 800m hlaupsins.
Einar Daði Lárusson endaði í 7. sæti í hástökkskeppni karla í dag. Hann fór yfir byrjunarhæð sína í fyrstu tilraun sem var 1,90m en felldi svo 2,00m þrisvar sinnum og endaði í 7. sæti.
Jæja. Eitthvað smá að gerast í úrslitaþjónustunni hjá Georgíumönnum. Í það minnsta eru loksins komin úrslit úr 3000m hlaupi kvenna. Þar hljóp Arndís Ýr Hafþórsdóttir fyrir Ísland og kom fjórða í mark á tímanum 10:01,8 mín.
Enn vantar staðfest úrslit í 800m hlaupi kvenna, 3000m hlaupi kvenna, 5000m hlaupi karla og hástökki karla. Þetta er með ólíkindum. Í raun óskiljanlegt að Georgía hafi sóst eftir því að halda þetta mót án þess að ráða við nokkurn skapaðan hlut tengdan mótinu.