">
Næstsíðasti dagurinn á Íslandsmótinu í golfi í Vestmannaeyjum heilsaði með sól og blíðu í morgun, eins og verið hefur hina tvo keppnisdagana. Gauti Grétarsson úr Nesklúbbnum var sá kylfingur sem "slapp síðastur í gegnum hliðið" þegar keppendafjöldi í karlaflokki á Íslandsmótinu var skorinn niður eftir annan hringinn í gær. Alls voru 94 sem tóku þátt en 72 fá að leika tvo síðustu keppnisdagana.
Það voru engin "stór nöfn" sem féllu úr leik að þessu sinni en þeir sem léku á 21 höggi yfir pari eða minna komust áfram. Þar má nefna Björgvin Þorsteinsson, GA, sem er í þessum hópi en hann er sexfaldur Íslandsmeistari og keppir í fertugasta skipti á Íslandsmóti að þessu sinni.
Úlfar Jónsson, GK, er einnig sexfaldur Íslandsmeistari en hann er samtals sex höggum yfir pari og í hópi tuttugu efstu sem stendur. Allir keppendur í kvennaflokki, alls 16 keppendur, fá að leika næstu tvo daga.
Í kvennaflokki leiðir Ólöf María Jónsdóttir GK mótið á 8 höggum yfir pari, önnur er Ragnhildur Sigurðardóttir GR á 12 höggum yfir pari og þriðja er Þórdís Geirsdóttir GV á 14 höggum yfir pari.
Hjá körlunum er það Birgir Leifur Hafþórsson GKG sem er efstur á 8 höggum undir pari, annar er Magnús Lárusson Gkj á 5 höggum undir pari og þriðji er Sigurpáll Geir Sveinsson GA á 4 höggum undur pari.
Sigurpáll Geir, Magnús Lárusson og Birgir Leifur eru í síðasta ráshópi hjá körlunum í dag og verða þeir ræstir út klukkan 13.30. Síðasti ráshópur kvenna verður ræstur út klukkan 12.30, en í honum leika Þórdís Geirsdóttir, Ragnhildur Sigurðardóttir og Ólöf María Jónsdóttir.