Linicome stal sigrinum á Ginn meistaramótinu

Brittany Linicome frá Bandaríkjunum.
Brittany Linicome frá Bandaríkjunum. LPGA.COM

Brittany Linicome frá Bandaríkjunum sigraði á Ginn meistaramótinu á LPGA-mótaröðinni í gær en fyrir síðasta keppnisdaginn leit allt út fyrir að Lorena Ochoa frá Mexíkó og Laura Davies frá Englandi myndu berjast um sigurinn. Davies var með eitt högg í forskot þegar tvær holur voru eftir en hún fékk skramba (+2) á 17. brautina og á 18. brautinni gekk enn verr hjá Davies sem lék lokaholuna á þremur höggum yfir pari vallar.

Lincicome var fjórum höggum á eftir efstu kylfingum mótsins fyrir lokadaginn en hún lék á pari vallar, 72 höggum, þrátt fyrir erfiðar aðstæður en mikill vindur var á keppnisvellinum.

Lincicome er 21 árs gömul en hún endaði á 10 höggum undir pari og fékk hún um 25,5 millj. kr. í sinn hlut. Ochoa varð önnur á 9 höggum undir pari samtals en hún lék lokaholuna á skramba (+2) og lokahringinn á 77 höggum. Davies var á 79 höggum á lokadeginum en hún hefur ekki sigrað á LPGA-móti í sex ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka