Ochoa varði titilinn með yfirburðum

Lorena Ochoa slær boltann en Annika Sörenstam fylgist með.
Lorena Ochoa slær boltann en Annika Sörenstam fylgist með. Reuters

Lorena Ochoa frá Mexíkó varði titilinn á Sybase -meistaramótinu í golfi á LPGA-kvennamótaröðinni í gær en hún lék samtals á 18 höggum undir pari vallar. Þetta er fyrsti sigur Ochoa eftir að hún náði efsta sætinu á heimslistanum og velti þar Anniku Sörenstam frá Svíþjóð úr efsta sætinu. Ochoa er aðeins 25 ára gömul en hún stefnir að því að sigra á næsta stórmóti LPGA-mótaraðarinnar sem er McDonalds mótið. Sarah Lee varð önnur á Sybase-meistaramótinu en hún lék á 9 höggum undir pari vallar samtals. Ochoa lék lokahringinn á 68 höggum eða fjórum höggum undir pari vallar.

Árangur Ochoa á mótinu um helgina er jöfnun á besta skori á 72 holu móti á LPGA-mótaröðinni en hún lék einnig á 18 höggum undir pari þegar hún sigraði á Safeway-meistaramótinu fyrr á þessu ári.

Ochoa gerðist atvinnukylfingur árið 2002 og hefur hún sigrað á 14 LPGA-mótum á þeim tíma en besti árangur hennar á stórmóti er 2. sætið á Kraft Nabisco meistaramótinu árið 2006. Árið 2003 var hún valinn nýliði ársins á LPGA-mótaröðinni og í fyrra varð hún efst í kjöri íþróttafréttamanna AP fréttastofunnar á vali á íþróttakonu ársins 2006.

Hún var einnig kjörinn kylfingur ársins á LPGA-mótaröðinni og í Mexíkó var hún kjörinn íþróttamaður ársins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka