Goosen: „Wie á ekki að leika á karlamótum“

Michelle Wie.
Michelle Wie. Reuters

Retief Goosen atvinnukylfingur frá S-Afríku sagði við fréttamenn í Wales í dag að hann teldi að Michelle Wie frá Bandaríkjunum ætti ekki að leika á mótum á karlamótaröðinni. Wie verður á meðal keppenda á John Deere meistaramótinu á PGA-mótaröðinni í júlí á þessu ári en hún hefur verið meidd á úlnlið að undanförnu og lítið sem ekkert leikið á LPGA-kvennamótaröðinni. Wie er 17 ára gömul og hefur ekki tryggt sér keppnisrétt á LPGA-kvennamótaröðinni en hún hefur fengið boð frá styrktaraðilum til þess að taka þátt og það sama er uppi á teningnum á PGA-mótaröðinni.

„Ég held að flestir kylfingar sem leika á atvinnumótaröðum í Bandaríkjunum og Evrópu séu á sama máli. Við teljum það ekki vera rétt að bjóða Wie á þessi móti. Ef hún nær að tryggja sér keppnisrétt með því að ná góðum árangri á úrtökumóti þá hef ég ekkert á móti því að hún leiki. Það eru fá tækifæri sem opnast fyrir unga og efnilega kylfinga á sterkustu mótaröðum heims og mér finnst ekki rétt að Wie fái tækifæri í stað þeirra. Hún getur látið ljós sitt skína á LPGA-kvennamótaröðinni,“ sagði Goosen en hann verður á meðal keppenda á opna welska meistaramótinu sem hefst á morgun á Celtic Manor vellinum í Wales og er Birgir Leifur Hafþórsson á meðal keppenda.

„Ég veit eiginlega ekki hvert markmið hennar er með því að leika á karlamótaröðum víðsvegar um heiminn. Ef hún hefur ætlað að nota karlamótin til þess að bæta leik sinn þá hefur henni ekki tekist það. Ég veit því ekki hver markmið hennar eru,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka