Michelle Wie frá Bandaríkjunum hætti keppni eftir 16 holur á fyrsta keppnisdegi Ginn Tribute mótinu á LPGA-kvennamótaröðinni í golfi í Bandaríkjunum. Wie hefur átt við meiðsli að stríða frá því í janúar á úlnlið en hún hefur ekki keppt frá því í janúar.
Wie var á 14 höggum yfir pari eftir 16 holur og á 17. teig kallaði hún á sjúkraþjálfara og lækni sem ráðlögðu henni að hætta keppni. Bandarískir fjölmiðlar leiða að því líkum að Wie hafi hætt keppni þar sem hún óttaðist að leika á 88 höggum eða meira á fyrsta keppnisdeginum. Samkvæmt reglum LPGA fá þeir kylfingar sem ekki eru með keppnisrétt á LPGA og leika á 88 höggum á LPGA-móti ekki að taka þátt á fleiri mótum á því keppnistímabili. Wie er ekki með keppnisrétt á LPGA mótum og stólar hún á að fá boð frá styrktaraðilum á þau mót sem hún tekur þátt í. Wie hefði því verið í vondum málum hefði hún leikið á meira en 88 höggum á fyrsta keppnisdegi Ginn Tribute mótinu sem Annika Sörenstam hefur skipulagt.
Lorena Ochoa frá Mexíkó er í efsta sæti mótsins eftir tvo keppnisdaga en hún er á 9 höggum undir pari vallar. Sörenstam er á einu höggi undir pari eftir 36 holur.