Sörenstam gagnrýnir Wie

Michelle Wie.
Michelle Wie. Reuters

Annika Sörenstam frá Svíþjóð sem hefur verið sigursælasti kylfingur LPGA-kvennamótaraðarinnar á undanförnum árum gagnrýnir Michelle Wie frá Bandaríkjunum fyrir þá ákvörðun að hætta keppni á síðasta móti vegna meiðsla. Sörenstam er ekki í vafa um að Wie hætti keppni vegna þess að hún var búinn að leika á 14 höggum yfir pari á fyrstu 16 brautunum og sá Wie fram á það að fá ekki fleiri tækifæri á LPGA-mótaröðinni á þessu keppnistímabili.

Wie, sem er 17 ára gömul, er ekki með keppnisrétt á LPGA-mótaröðinni en hún fær að keppa á flestum mótum þar sem að styrktaraðilar mótanna fá að bjóða þeim sem þeir kjósa á sín mót. Wie dregur að sér athygli og þarf hún ekki að óttast að fá ekki að leika á nógu mörgum mótum. Í reglum LPGA segir að kylfingar sem leika á 88 höggum eða meira og eru ekki með keppnisrétt á LPGA mótaröðinni fá ekki fleiri tækifæri á mótaröðinni á því tímabili. Sörenstam segir í viðtali við Aftonbladet í heimalandi hennar að Wie hafi ekki hætt vegna meiðsla. „Hún öðlast ekki virðingu með því að hætta keppni vegna meiðsla og tveimur dögum síðar er hún byrjuð að æfa á fullu á ný,“ sagði Sörenstam.

Wie segir við bandaríska fjölmiðla að hún þurfi ekki að útskýra það fyrir öðrum afhverju hún hætti keppni. „Ég fann til í hendinni og í raun hefði ég átt að hætta keppni mun fyrr,“ segir Wie.

LPGA-meistaramótið fer fram í þessari viku en í fyrsta sinn í langan tíma gera golfsérfræðingar ekki ráð fyrir því að Sörenstam sé á meðal þeirra sigurstranglegustu.

Se Ri Pak frá S-Kóreu hefur titil að verja á mótinu en flestir eiga von á því að Lorena Ochoa frá Mexíkó geri atlögu að titlinum en hún er í efsta sæti heimslistans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert