Petterson „stal“ pútter og sigraði á stórmóti

Suzann Petterson, fagnar sigrinum.
Suzann Petterson, fagnar sigrinum. AP

Suzann Petterson, frá Noregi, sigraði á stórmóti atvinnukvenna í golfi í gær á LPGA-meistaramótinu í Bandaríkjunum en þetta er í fyrsta sinn sem norskur kylfingur sigrar á stórmóti.

Petterson sagði í viðtali við Aftenposten eftir sigurinn að hún hafi átt í vandræðum með púttin í aðdraganda mótsins og á síðasta æfingadegi fyrir mótið lék hún með áhugakylfingum og styrktaraðilum mótsins. Þar fékk hún að prófa pútterinn hjá Tom Elliot sem er áhugakylfingur og Elliot fékk ekki pútterinn aftur. Petterson fann að þarna var rétta verkfærið. „Ég fann að með þessum pútter átti ég möguleika. Ég borgaði ekkert fyrir pútterinn en ég keypti alveg eins pútter fyrir Elliot,“ sagði Petterson. Hún fékk um 20 millj. kr. fyrir sigurinn en á þessu ári hefur hún fengið yfir 70 millj. kr. í verðlaunafé.

Petterson henti frá sér sigrinum á Kraft Nabisco meistaramótinu í mars s.l. sem er eitt af fimm stórmótum ársins á LPGA-mótaröðinni og var hún staðráðinn í því að láta það ekki gerast aftur. Á lokadeginum lék Petterson á fimm höggum undir pari, 67 höggum, en nýliðinn Min Na-on frá S-Kóreu varð þriðja og Karrie Webb frá Ástralíu varð önnur – einu höggi á eftir Petterson.

Þetta er annar sigur Petterson á LPGA-mótaröðinni en fyrsti sigur hennar var á Michelob-meistaramótinu í apríl. Hin 26 ára gamla Petterson lauk leik á 14 höggum undir pari í gær en hún fékk fjóra fugla á síðari 9 holunum og var hún einu höggi betri en Webb sem fékk sex fugla á síðustu tólf holunum á lokadeginum. Annika Sörenstam frá Svíþjóð endaði í 15. sæti en hún var 9 höggum á eftir Petterson. Sörenstam, sem þrívegis hefur sigrað á þessu móti, hefur lítið leikið á þessu tímabili vegna meiðsla í baki en þetta var aðeins annað mótið hjá henni á þessu ári. Hún vann LPGA-meistaramótið þrjú ár í röð, 2003, 2004 og 2005, og er hún sú eina sem hefur náð því sigra þrjú ár í röð á þessu stórmóti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka