Lorena Ochoa sigraði á Opna breska meistaramótinu í golfi í kvennaflokki sem lauk í dag á St. Andrews vellinum í Skotlandi. Þetta er í fyrsta sinn sem Ochoa sigrar á stórmóti en hún er í efsta sæti heimslistans. Ochoa var fjórum höggum betri en Maria Hjörth frá Svíþjóð og Lee Jee-Young frá S-Kóreu. Ochoa fékk rúmar 20 millj. kr. fyrir sigurinn en hún var með sex högg í forskot fyrir lokadaginn. Þetta er þriðja mótið sem Ochoa vinnur á þessu tímabili en alls hefur hún sigrað á 12 mótum á atvinnuferli sínum.