George McNeill, nýliði á PGA-mótaröðinni í golfi, sigraði á Frys.com meistaramótinu sem lauk í gær en hann lék hringina fjóra á 23 höggum undir pari samtals. D.J. Trahan varð annar, fjórum höggum á eftir hinum 32 ára gamla McNeill. Cameron Beckman og Robert Garrigus voru jafnir í þriðja sæti.
McNeill hefur ekki náð að festa sig í sessi á PGA-mótaröðinni á undanförnum árum en hann hefur níu sinnum farið í gegnum úrtökumót PGA-mótaraðarinnar. Með sigrinum tryggði hann sér keppnisrétt í tvö ár á mótaröðinni og að auki fékk hann rúmlega 43,5 milljónir kr. í verðlaunafé.
"Áður en mótið hófst var ég með hugann við það að ég þyrfti líklega að fara í gegnum úrtökumótið enn og aftur þar sem ég var í 122. sæti á peningalistanum. Með þessum sigri er ég búinn að tryggja mér tveggja ára keppnisrétt og ég get því einbeitt mér betur að golfinu," sagði McNeill sem er núna í 59. sæti á peningalistanum.