Els upp um eitt sæti á heimslistanum

Ernie Els fagnar sigrinum á HSBC-meistaramótinu.
Ernie Els fagnar sigrinum á HSBC-meistaramótinu. AP

Ernie Els frá Suður-Afríki hækkaði sig um eitt sæti á heimslistanum í golfi sem er uppfærður vikulega. Els er nú í 4. sæti eftir sigurinn á HSBC-heimsmótinu í holukeppni en hann hefur sjö sinnum sigrað á því móti. Els sigraði Angel Cabrera frá Argentínu í úrslitaleiknum en Cabrera fer upp um fjögur sæti og er hann í 17. sæti þessa stundina.

George McNeill frá Bandaríkjunum, sem sigraði í fyrsta sinn á PGA-móti s.l. sunnudag, fer upp um 123 sæti á heimslistanum og er hann í 119. sæti. Mads Vibe-Hastrup frá Danmörku sem sigraði á Madridar-meistaramótinu s.l. sunnudag á Evrópumótaröðinni fór upp um 156 sæti á heimslistanum en hann er í 178. sæti. Birgir Leifur Hafþórsson er í 751. sæti heimslistans en hann fellur niður um sex sæti frá því í síðustu viku.

Staða þriggja efstu manna á listanum breyttist ekki, Tiger Woods frá Bandaríkjunum, er sem fyrr í efsta sæti listans, en hann með gríðarlegt forskot á Phil Mickelson sem er annar. Woods hefur verið í efsta sæti listans í 456 vikur samtals.

Heimslistinn í golfi var fyrst birtur árið 1986 og frá þeim tíma hafa aðeins 11 kylfingar náð efsta sæti listans. Bernhard Langer (3 vikur), Seve Ballesteros (61 vika), Greg Norman (331 vika), Nick Faldo (97 vikur), Ian Woosnam (50 vikur), Fred Couples (16 vikur), Nick Price (44 vikur), Tom Lehman (1 vika), Ernie Els (9 vikur), David Duval (15 vikur) og Vijay Singh (32 vikur).

1. Tiger Woods Bandaríkin 23.60 stig.
2. Phil Mickelson Bandaríkin 9.54 stig.
3. Jim Furyk Bandaríkin 7.79 stig.
4. Ernie Els Suður-Afríka 7.51 stig.
5. Steve Stricker Bandaríkin 7.18 stig.
6. Adam Scott Ástralía 6.31 stig.
7. Padraig Harrington Írland 5.96 stig.
8. K.J. Choi Suður-Kórea 5.64 stig.
9. Sergio Garcia Spánn 5.61 stig.
10. Rory Sabbatini Suður-Afríka 5.55 stig.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert