Kylfusveinn Tigers Woods gaf 60 milljónir kr.

Steve Williams ásamt Tiger Woods.
Steve Williams ásamt Tiger Woods. Reuters

Steve Williams frá Nýja-Sjálandi, kylfuberi kylfingsins Tiger Woods, hefur hagnast vel á samstarfi hans við besta kylfing heims. Að öllu jöfnu fá kylfuberar um 10% af verðlaunafé kylfingsins en Williams hefur á undanförnum árum verið tekjuhæsti „íþróttamaður“ Nýja-Sjálands.Á dögunum gaf Williams rúmlega 60 milljónir kr. til góðgerðamála en það var barnaspítali í heimalandi hans sem fékk gjöfina. Williams stofnaði árið 2001 sérstakan sjóð sem er ætlaður fyrir góðgerðamál af ýmsu tagi en hann hefur m.a. lagt fjármagn í uppbyggingarstarf hjá ungum kylfingum í Nýja-Sjálandi.

Akstursíþróttir hafa einnig notið góðs af velvild Williams en hann keppir sjálfur í ýmsum akstursíþróttum og hefur hann unnið titla í mörgum keppnum.

Frá árinu 1999 hefur Williams verið aðstoðarmaður Woods en bandaríski kylfingurinn hefur unnið sér inn rúmlega 4,3 milljarða kr. í verðlaunafé.

Williams hefur því verið á góðu „skipsplássi“ undanfarin ár og fengið rúmlega 400 milljónir kr. í sinn hlut og að auki er hann með samstarfssamninga við ýmis fyrirtæki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert