Vandræðin hlaðast upp hjá Michelle Wie

Michelle Wie fékk far með golfbíl þegar hún hætti keppni …
Michelle Wie fékk far með golfbíl þegar hún hætti keppni á Ginn Tribute meistaramótinu. Reuters

Vandræðin hjá bandaríska kylfingnum Michelle Wie halda áfram en hin 18 ára gamla Wie hefur leikið afar illa á þessu ári sem atvinnukylfingur og í gær sagði umboðsmaður hennar starfi sínu lausu. Og er þetta í annað sinn á tveimur árum sem umboðsmenn hætta í starfi hjá henni. Wie hefur verið gagnrýnd úr ýmsum áttum á undanförnum árum vegna þátttöku hennar á atvinnumótum á karlamótaröðum víðsvegar um heiminn.

Styrktaraðilar hafa keppst um að fá hana til leiks enda hefur hún vakið mikla athygli hvar sem hún hefur leikið. Wie hefur hinsvegar lítið getað úti á golfvellinum á þessu ári en meðalskor hennar á þessu tímabili var 76,6 högg. Hún lék aðeins tvo hringi undir pari og aðeins á þremur mótum komst hún í gegnum niðurskurðinn.

Greg Nared, umboðsmaður Wie, sagði upp störfum í gær. Aðeins einum degi eftir að Wie endaði í 19. sæti af alls 20 á Samsung meistaramótinu á LPGA-kvennamótaröðinni. Wie verður 18 ára gömul í þessari viku en hún gerðist atvinnumaður árið 2005.

Á þessu tímabili lék hún á 8 mótum en hún fékk gríðarlega harða gagnrýni frá öðrum kylfingum þegar hún dró sig úr keppni á Ginn Tribute -meistaramótinu sem fram fór í lok maí.

Þar lenti Wie í miklum vandræðum og þegar hún var búinn með 16 holur á fyrsta keppnisdegi var hún 14 höggum yfir pari. Hún ræddi við umboðsmann sinn þegar hún hafði lokið við 16. brautina og áður en hún kom að 17. teig ræddi hún við dómara og óskaði eftir því að fá að hætta keppni vegna veikinda.

Margir telja að þar hafi hún gert sér upp veikindi til þess að sveigja framhjá reglunni um 88 höggin.

Í reglum LPGA er greint frá því að þeir kylfingar sem eru ekki með fullan keppnisrétt á LPGA geti ekki leikið á LPGA móti í eitt ár ef þeir leika á 88 höggum eða meira á LPGA-móti. Það stefndi allt í það hjá Wie á fyrsta keppnisdegi Ginn Tribute -meistaramótsins en hún er ekki með fullan keppnisrétt á LPGA og þarf að stóla á að fá boð frá styrktaraðilum.

Tveimur dögum eftir að mótinu lauk mætti Wie til leiks á McDonalds meistaramótinu og gagnrýndi Annika Sörenstam þátttöku Wie á því móti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka