Slæm byrjun Angel Cabrera frá Argentínu á lokakeppnisdegi PGA Grand Slam meistaramótsins í golfi á Bermúda-eyjum varð honum ekki að falli. Hann var fimm höggum á eftir Íranum Padraig Harrington eftir fyrstu holuna á síðari keppnisdegi mótsins. Cabrera var síðan tveimur höggum á eftir Harrington þegar hann hafði leikið 16 holur en á síðustu tveimur holunum lék Cabrera á þremur höggum undir pari þar sem hann fékk fugl og örn. Hann jafnaði því við Harrington sem var á 4 höggum undir pari eftir 36 holur og þeir léku bráðabana um sigurinn þar sem Cabrera hafði betur á þriðju holu.
Fyrir sigurinn fékk Cabrera um 34 milljónir kr. í verðlaunafé, Harrington fékk um 18,2 milljónir kr.
Um 10% af íbúafjölda Bermúda-eyja fylgdist með viðureign Cabrera og Harrington en um 7,000 áhorfendur voru mættir á Mid-Ocean golfvöllinn. Fáir áttu von á spennandi keppni þegar 11 holur voru eftir af mótinu en þá var Harrington með fjögurra högga forskot.
Aðeins fjórir keppendur eru á mótinu, sigurvegarar á stórmótunum fjórum. Harrington sigraði á Opna breska meistaramótinu á Carnoustie í sumar.
Tiger Woods, sem sigraði á tveimur stórmótum á þessu ári, sá sér ekki fært um að vera með á þessu móti en hann ætlar að taka sér 11 vikna frí frá keppni.
Angel Cabrera sigraði á Opna bandaríska meistaramótinu á þessu ári. Jim Furyk náði ekki að sigra á stórmóti á þessu ári en hann var með besta samanlagðan árangur á stórmótunum fjórum og fékk því að taka þátt þar sem að Woods er ekki með.
Furyk átti ágæta möguleika á sigri á lokadeginum en hann lék 11. brautina á þremur höggum yfir pari eða 8 höggum, og gerði hann þar með út um möguleika sína. Furyk endaði á 2 höggum undir pari og fékk 15, 2 milljónir kr. í verðlaunafé.
Zach Johnson, sem sigraði á Mastersmótinu á Augusta, endaði á 1 höggi undir pari vallar en hann fékk samt sem áður um 12 milljónir kr. í verðlaunafé.