Golfklúbbur Reykjavíkur tekur að sér rekstur Garðavallar

Golfklúbbur Reykjavíkur (GR) og Golfklúbburinn Leynir (GL) hafa gert með sér samstarfssamning um að Golfklúbbur Reykjavíkur taki að sér rekstur Garðavallar frá og með 1. janúar 2008. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá GR og GL.

Samningurinn er til fimm ára en á samningstímanum annast GR rekstur Garðavallar, mannvirkja og tækja sem honum tengjast. Í þessu felst m.a. að GR annast hirðingu vallarins, eðlilegt viðhald tækja, almenna afgreiðslu, opin mót, veitingasölu og aðra þjónustu vegna reksturs vallarins.

Rekstrarform GL verður eftir sem áður að halda úti félagsstarfi klúbbsins í þágu sinna félagsmanna s.s. innanfélagsmótum, barna- og unglingastarfi og afreksstarfi.

Félagsmenn GL og GR munu á hafa sama aðgangsrétt til golfleiks á Garðavelli á samningstímanum og er með samningum tryggt að Garðavöllur verður meðal allra bestu golfvalla landsins, félagsmönnum til mikils sóma.

Samningsaðilar eru mjög ánægðir með þennan samning og telja hér um mikið framfaraspor fyrir golfíþróttina að ræða. Rekstur jaðarklúbba við Reykjavíkursvæðið hefur verið erfiður undanfarin ár en með samningi þessum er sýnt fram á góðan samstarfsvilja þessara klúbba. GR hefur á að skipa þekkingu á golfvöllum og nýtur GL góðs af því í þessu samstarfi.

Garðar Eyland, framkvæmdastjóri GR og Heimir Fannar Gunnlaugsson, formaður GL skrifuðu undir samninginn fyrir hönd GR og GL.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert