Rose fór holu í höggi á lokamótinu á Valderama

Justin Rose.
Justin Rose. Reuters.

Enski kylfingurinn Justin Rose fór holu í höggi á fyrsta keppnisdegi Volvo-meistaramótsins á Evrópumótaröðinni í golfi í dag en þetta er í fyrsta sinn sem hann slær draumahöggið á Evrópumótaröðinni. Mótið er lokamót Evrópumótaraðarinnar á keppnistímabilinu og aðeins 55 kylfingar fengu að taka þátt á mótinu. Rose er á meðal efstu manna eftir fyrsta keppnisdaginn en hann lék á einu höggi undir pari, 70 höggum, en Greame McDowell frá Englandi er efstur á þremur höggum undir pari, 68 höggum. Írinn Paul McGinley er annar á 69 höggum.

Padraig Harrington frá Írlandi hrökk í gang á síðari níu holunum í dag þar sem hann fékk fimm fugla en Harrington á enn möguleika á að enda í efsta sæti peningalistans á þessu keppnistímabili.

Ernie Els frá Suður-Afríku er efstur á peningalistanum en hann fjarri góðu gamni en Els keppir á stórmóti á Asíumótaröðinni í þessari viku ásamt fleiri þekktum kylfingum. Harringon, sem lék á pari vallar í dag, þarf að enda í einu af þremur efstu sætunum á Valderama til þess að eiga möguleika á efsta sæti peningalistans.

Svíarnir Henrik Stenson og Niclas Fasth þurfa að sigra á þessu móti til þess að eiga möguleika á efsta sæti peningalistans en þeir eru á fimm og fjórum höggum yfir pari eftir fyrsta keppnisdaginn.

Staðan á mótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert