Rose og Harrington geta velt Els úr efsta sæti peningalistans

Justin Rose.
Justin Rose. Reuters.

Justin Rose frá Englandi er líklegur til þess að verða efstur á peningalista Evrópumótaraðarinnar á þessu keppnistímabili en Rose er með fjögurra högga forskot á helsta keppinautinn, Padraig Harrington frá Írlandi. Rose lék á 68 höggum á öðrum keppnisdegi Volvo meistaramótsins og er hann samtals á 4 höggum undir pari í efsta sæti mótsins þegar keppni er hálfnuð á Valderama vellinum.

Rose er eini kylfingurinn sem er undir pari vallar en Harrington er annar en hann hefur leikið báða hringina á pari vallar eða 71 höggi. Fjórir kylfingar eru jafnir á einu höggi yfir pari vallar en þeir eru: Graeme McDowell frá Norður-Írlandi, Spánverjinn Miguel Angel Jimenez, Indverjinn Jyoty Randhawa og Daninn Sören Kjeldsen.

Rose og Harrington eru í hópi fimm kylfinga sem geta tryggt sér efsta sæti peningalistans á Evrópumótaröðinni en Ernie Els frá Suður-Afríku er sem stendur í efsta sæti. Els er ekki með á lokamótinu á Valderama vegna skuldbindinga hans við mótshaldara á Barcleys meistaramótinu í Singapúr. Rose og Harrington verða að vera í einu af þremur efstu sætunum á Valderama til þess að ná efsta sæti peningalistans.

Svíarnir Niclas Fasth og Henrik Stenson áttu einnig möguleika á efsta sæti peningalistans en þeir hafa leikið illa á fyrstu tveimur keppnisdögunum og eiga því litla möguleika.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert