Birgir Leifur: „Stefán Már gaf mér fín ráð“

Birgir Leifur Hafþórsson.
Birgir Leifur Hafþórsson. Eyþór Árnason

Birgir Leifur Hafþórsson náði frábærum árangri á þriðja keppnisdegi úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina en hann lék á 65 höggum í dag eða 7 höggum undir pari. Hann er samtals á 11 höggum undir pari og er hann í efsta sæti fyrir lokahringinn en alls eru 79 keppendur á þessum velli. „Þetta var frábær dagur þar sem að margt gekk upp. Ég hitti allar brautir nema eina eftir upphafshöggin og ég hitti allar flatir í tilætluðum höggafjölda. Það gerist ekki oft en mér líður vel og ég hlakka til að slá fyrsta upphafshöggið á morgun. Það er næsta golfhöggið hjá mér og það er næsta verkefni,“ sagði Birgir Leifur í samtalið við mbl.is í dag.

Alls eru 308 kylfingar sem taka þátt á 2. stigi úrtökumótsins og aðeins 74 þeirra komast áfram á lokaúrtökumótið. Á Arcos Gardens vellinum, þar sem Birgir er að leika, komast 19 efstu áfram á lokaúrtökumótið og er hann því í góðum málum fyrir lokahringinn á morgun.

„Þetta var frábær dagur þar sem að margt gekk upp. Ég hitti allar brautir nema eina eftir upphafshöggin og ég hitti allar flatir í tilætluðum höggafjölda. Það gerist ekki oft en mér líður vel og ég hlakka til að slá fyrsta upphafshöggið á morgun. Það er næsta golfhöggið hjá mér og það er næsta verkefni,“ sagði Birgir Leifur í samtalið við mbl.is í dag.

Birgir er ánægður með að fá aðstoð frá Stefáni Má Stefánssyni úr GR en hann býr í Lúxemborg líkt og Birgir og hafa þeir æft mikið saman undanfarnar vikur. „Stefán gaf mér fín ráð og það er gott að hafa einhvern til þess að aðstoða við ýmislegt. Ég spyr hann oft um kylfuval og slíka hluti. Stefán þekkir nú betur hvernig ég er að slá og hann kom með marga góða punkta í dag sem ég gat nýtt mér.“

Á fréttavef Evrópumótaraðarinnar vekur árangur Birgis athygli en þar er mynd af íslenska kylfingnum í frétt af gangi mála á völlunum fjórum í dag. Birgir er eini íslenski kylfingurinn sem hefur náð að tryggja sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni.

„Ég hef fengið að kynnast því hvernig er að leika á Evrópumótaröðinni og ég hef sett stefnuna á að komast á þangað aftur á næsta tímabili. Ég byrjaði síðasta tímabil vel en ég náði ekki að fylgja því eftir. Mér finnst ég hafa lært mikið á þessu tímabili og kannski er allt að detta inn hjá mér þessa dagana.“

Á fyrsta keppnisdegi mótsins lék Birgir á pari eða 72 höggum en í gær var hann á 68 höggum eða fjórum höggum undir pari.

David Dixon frá Englandi er annar en hann er samtals á 10 höggum undir pari en þeir sem eru í 18. sæti eru á 3 höggum undir pari. Birgir átti besta skor dagsins ásamt Roope Kakko frá Finnlandi en hann er í þriðja sæti á 8 höggum undir pari.

Birgir komst í gegnum 2. og 3. stig úrtökumótsins í fyrra og endaði í hópi 35 efstu á lokaúrtökumótinu sem tryggði honum keppnisrétt á 18 mótum á Evrópumótaröðinni á þessu ári.

Frá árinu 1997 hefur Birgir Leifur tekið þátt á úrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina en það var í fyrsta sinn í fyrra sem hann náði að vera á meðal 35 efstu á lokaúrtökumótinu.

Staðan á mótinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert