Creamer fékk sjö fugla í röð

Paula Creamer.
Paula Creamer. NICKY LOH

Paula Creamer gerði sér lítið fyrir og lék sjö holur í röð á einu höggi undir pari á LPGA-kvennamótaröðinni í gær og er hún í efsta sæti eftir fyrsta keppnisdaginn ásamt Meg Mallon.

Creamer, sem er 21 árs gömul, lék tvær holur á  einu höggi yfir pari og þegar hún kom á 12. teig var hún á tveimur höggum yfir pari. Þá byrjaði sýningin og fékk hún fugl á allar holurnar sem eftir voru eða alls sjö fugla. Hún er því á 5 höggum undir pari líkt og Mallon.  

Þær eru tveimur höggum betri en Mi Hyun Kim og Seon Hwa Lee frá Suður-Kóreu,  Natalie Gulbis og Pat Hurst frá Bandaríkjunum og Suzann Pettersen frá Noregi. Annika Sörenstam frá Svíþjóð lék á 71 höggi og Lorena Ochoa frá Mexíkó sem er í efsta sæti heimslistans í kvennaflokki byrjaði illa og er hún á 74 höggum. Aðeins 35 keppendur er með á þessu móti en þar fá aðeins þeir kylfingar að taka þátt sem hafa náð að sigra á LPGA-mótaröðinni frá árinu 2004.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka