Birgir: „Síðari 9 holurnar voru erfiðar í dag“

Birgir Leifur Hafþórsson.
Birgir Leifur Hafþórsson. Reuters

Birgir Leifur Hafþórsson atvinnukylfingur úr GKG hóf leik í morgun á öðrum keppnisdegi lokaúrtökumóts Evrópumótaraðarinnar í golfi. Hann bætti sig um eitt högg í dag þar sem hann lék á 70 höggum eða 2 höggum undir pari en í gær var hann á 71 höggi. Birgir er því samtals á 3 höggum undir pari og er hann í 13. -17. sæti fyrir þriðja keppnisdaginn.

„Ég er að sjálfsögðu sáttur við að vera í einu af 30 efstu sætunum á þessum tímapunkti en það er markmiðið hjá mér á þessu móti. Það var frekar erfitt að ná fuglum á síðari 9 holunum. Aðstæður voru þannig og það þarf bara eitt lélegt golfhögg til þess að allt fari úr skorðum á þessum völlum. Það er gott að byrja með þessum hætti, ég bæti mig um eitt högg frá því í gær, og það eru fá vandamál í leik mínum. Reyndar var ég ósáttur við skollana sem ég fékk. Það voru tvö léleg vipp og ég náði ekki að einpútta í þeim tilvikum,“ sagði Birgir Leifur við mbl.is síðdegis. Nánar verður rætt við Birgi í Morgunblaðinu á morgun. Alls eru 156 kylfingar að leika um 30 laus sæti á Evrópumótaröðinni en keppni stendur yfir í 6 daga. Um helmingur keppenda fær að taka þátt á síðustu tveimur keppnisdögunum.

Sá sem var efstur er nú í 65 sæti

Það eru miklar sviptingar á lokaúrtökumótinu og helst ber að nefna að enski kylfingurinn Robert Coles hrapaði úr efsta sæti mótsins eftir að hafa leikið á 79 höggum í dag. Coles var efstur í gær eftir að hafa leikið á 66 höggum eða 6 höggum undir pari. Í dag gekk ekkert upp hjá Coles sem er núna á 1 höggi yfir pari samtals og er hann í 66. sæti ásamt fleiri kylfingum.

Birgir byrjaði á 1. teig í morgun og fékk hann örn (-2) á 2. holu, skolla (+1) á 4., og hann bætti stöðu sína verulega með tveimur fuglum í röð (-1) á 6. og 7. holu. Hann tapaði höggi á 10. braut þar sem hann fékk skolla (+1) en síðan fékk hann átta pör í röð.

Skorkort Birgis.

Staðan á mótinu.

Birgir: „Markmiðið er aðeins eitt - að komast áfram“

Þetta er 11. árið í röð þar sem að Birgir tekur þátt á úrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina og í 9. sinn sem hann kemst á lokaúrtökumótið. Í fyrra náði Birgir að vera í hópi þeirra sem fengu keppnisrétt á Evrópumótaröðinni en hann endaði í 25. sæti á lokaúrtökumótinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert