Birgir: „Ég fagna því ef það verður skýjað“

Birgir Leifur Hafþórsson.
Birgir Leifur Hafþórsson. Reuters

Atvinnukylfingurinn Birgir Leifur Hafþórsson hefur leik á Alfred Dunhill meistaramótinu í golfi kl. 11:10 að íslenskum tíma á morgun. Þetta er fyrsta mótið hjá Birgi á Evrópumótaröðinni á þessu keppnistímabili. Keppt er á Leopard Creek vellinum í Suður-Afríiu sem er við hliðina á þjóðgarði og er dýralífið mjög fjölbreytt á þessum slóðum. Birgir segir að hann sé bjartsýnn á góðan árangur á mótinu.

„Það eru mörg dýr á þessu svæði sem maður vill nú ekkert vera í mikill nálægð við. Áin sem rennur í gegnum völlinn heitir einfaldlega Krókódílaá og menn eru ekkert að leita að boltum sem fara þangað. Það er mjög sérstakt að leika hérna og þar sem ég kom hingað fyrir ári síðan þá þekkir maður aðstæður aðeins betur og vonandi skilar það sér í betri árangri. Ég lék einn æfingahring fyrir mótið og þar fyrir utan hefur maður verið á æfingasvæðinu og púttflötunum.“

Birgir komst ekki í gegnum niðurskurðinn á mótinu fyrir ári en hann stefnir á að ná betri árangri og halda áfram á sömu braut frá því á lokaúrtökumótinu á Spáni.

„Ég er allavega með betri aðstoðarmann í ár en í fyrra. Það er góð byrjun. Þetta er alltaf mikið happdrætti á þessu mótum að fá góða hjálp og minn maður í ár er að gera sitt besta. Það verður ekki sagt um þann sem ég var með í fyrra. Veðurspáin er einnig fín að mínu mati. Það verður skýjað og jafnvel skúrir. Hitinn í dag var t.d. rúmlega 30 stig og það verður alveg gríðarlega heitt á þessu svæði. Ég fagna því ef það verður skýjað.“

Margir þekktir kylfingar eru á meðal keppenda á þessu móti og má þar nefna Ernie Els frá Suður-Afríku og Darren Clarke frá Norður-Írlandi. „Ég hef nú ekki séð þá á æfingasvæðinu frá því ég kom en þeir eru báðir mjög jarðbundnir og láta lítið fara fyrir sér. Els er með hús á svæðinu og hann er með fjölskylduna með sér. Þetta er hálfgert frí hjá honum að koma á heimaslóðir og leika golf.“

Ferðalag Birgis frá Lúxemborg þar sem hann býr tók rúmlega 20 klukkustundir.

„Það varð strax töf á fluginu frá Lúxemborg til Frankfurt vegna veðurs í Lúxemborg. Ég missti því að fluginu frá Frankfurt til Jóhannesarborgar. Og þegar þangað var komið var ég búinn að missa af tengifluginu hingað á mótssvæðið. Ég beið því í sex tíma í Jóhannesarborg. Þetta er hluti af þessu ferli að vera í atvinnumennsku í golfi og svona hlutir trufla mig ekkert. Ég hef fengið ágæta hvíld að undanförnu eftir mikla en skemmtilega törn í nóvember og ég hlakka til að byrja á morgun,“ sagði Birgir Leifur Hafþórsson atvinnukylfingur.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert