Keppnistímabilið á Evrópumótaröðinni í golfi hófst í byrjun nóvember í Kína en á morgun mun Birgir Leifur Hafþórsson keppa á sínu fyrsta móti á tímabilinu en hann er á meðal keppenda á Alfred Dunhill-meistaramótinu í Suður-Afríku. Birgir lék á þessu móti í fyrra en hann komst ekki í gegnum niðurskurðinn þegar keppni var hálfnuð.
Mótið fer fram á Leopard Creek-vellinum
sem er við Mpumalanga en mótið fer fram
í miðjum þjóðgarði og er dýralífið því mjög fjölbreytt á þessum slóðum.
Leopard Creek-völlurinn er hannaður af einum
þekktasta kylfingi sögunnar, Gary Player frá Suður-Afríku. Mpumalanga er í um fjögurra
tíma akstursfjarlægð frá Jóhannesarborg í austurátt, og er völlurinn ekki langt
frá landamærum Suður-Afríku, Mósambík og Svasílands.
Birgir verður í ráshóp með Rossouw Loubser frá Suður -Afríku og Craig Lee frá Skotlandi fyrstu tvo keppnisdagana. Þeir hefja leik á 1. teig á morgun kl. 11:10 að íslenskum tíma.
Alvaro Quiros frá Spáni kom verulega á óvart í fyrra þegar hann sigraði á mótinu. Á meðal keppenda eru nokkrir mjög þekktir kylfingar og má þar nefna Ernie Els frá Suður-Afríku og Darren Clarke frá Norður-Írlandi. Els hefur þrívegis sigrað á þessu móti sem var sett á laggirnar árið 1995.