Það er öruggt að Birgir Leifur Hafþórsson kemst í gegnum niðurskurðinn að loknum öðrum keppnisdegi á Suður-Afríku meistaramótinu í golfi á Pearl Valley-vellinum í Suður-Afríku.
Birgir var í 71. sæti af alls 150 kylfingum eftir að hafa leikið á 79 höggum eða 7 höggum yfir pari í gær en í dag lék hann á 73 höggum eða 1 höggi yfir pari. Hann er í 54.-58. sæti fyrir þriðja og næst síðasta keppnisdag en hann er 10 höggum á eftir James Kingston frá Suður-Afríku sem er efstur á 2 höggum undir pari.
Það eru margir þekktir kylfingar á mótinu sem hafa átt í erfiðleikum og má þar nefna Ernie Els frá Suður-Afríku sem lék á 77 höggum í gær eða 5 höggum yfir pari en hann bætti sig um 7 högg í dag og er hann á 3 höggum yfir pari eftir að hafa leikið á 70 höggum í dag.
Birgir lék betur í dag en Retief Goosen sem er frá Suður-Afríku en Goosen lék á 74 höggum í dag líkt og hann gerði í gær. Els er í fimmta sæti heimslistans í golfi en Goosen er í 26. sæti heimslistans.
Birgir er á betra skori en Argentínumaðurinn Angel Cabrera sem sigraði á opna bandaríska meistaramótinu á þessu ári. Cabrera er samtals á 9 höggum yfir pari en hann lék á 80 höggum í gær og 73 höggum í dag. Cabrera er í 14. sæti heimslistans.
Rory McIlroy frá Norður-Írlandi, sem vakti gríðarlega athygli á opna breska meistaramótinu á þessu ári hefur ekki náð sér á strik á þessu móti og er hann samtals á 13 höggum yfir pari.
McIlroy náði þeim einstaka árangri á síðasta keppnistímabili að tryggja sér keppnisrétt á þessu tímabili með því að vinna sér inn um 25 milljónir kr. á aðeins fjórum mótum á Evrópumótaröðinni. Sá árangur tryggði honum 95. sætið á peningalistanum og þar með fékk hann keppnisrétt á Evrópumótaröðinni en 115 efstu fá sjálfkrafa keppnisrétt.
Staðan á mótinu.