Birgir: „Rosalega erfiðar aðstæður“

Birgir Leifur Hafþórsson á Leopard Creek vellinum í Suður-Afríku.
Birgir Leifur Hafþórsson á Leopard Creek vellinum í Suður-Afríku. Reuters

Birgir Leifur Hafþórsson atvinnukylfingur úr GKG segir að aðstæður á Suður-Afríkumótinu fyrstu tvo keppnisdagana hafi verið mjög erfiðar en hann á enn ágæta möguleika á að komast í gegnum niðurskurðinn á mótinu en hann er í 67.-72. sæti þessa stundina.

Skagamaðurinn lék á einu höggi yfir pari í morgun á öðrum keppnisdegi á Suður-Afríku meistaramótinu í golfi. Birgir er því samtals á 8 höggum yfir pari en lék á 79 höggum í gær en á 73 höggum í dag. 

„Gærdagurinn var rosalega erfiður, þar sem að vindurinn var mjög mikill. Þegar líða fór á daginn voru flatirnar mjög þurrar og gríðarlega harðar. Það var alveg á mörkunum að hægt væri að halda áfram að spila eins og flatirnar voru á þeim tíma,“  sagði Birgir Leifur við mbl.is nú rétt í þessu.

„Ég var í raun sáttur við flest hjá mér á fyrsta hringnum í gær. Ég sló eitt mjög lélegt högg sem var dýrkeypt. Ég týndi boltanum eftir það högg og ég lék þá braut á þremur höggum yfir pari. Í dag voru aðstæður betri þrátt fyrir að vindurinn væri enn mikill. Það var búið að vökva flatirnar mjög mikið yfir nóttina og það var því ekki eins erfitt að láta boltann stöðvast á flötunum eftir innáhöggin. Flatirnar voru ekki slegnar eins lágt og á fyrsta keppnisdeginum og það hjálpaði líka töluvert,“ sagði Birgir Leifur.

Það eru margir þekktir kylfingar á mótinu sem hafa átt í erfiðleikum og má þar nefna Ernie Els frá Suður-Afríku sem lék á 77 höggum í gær eða 5 höggum yfir pari. Birgir lék betur í dag en Retief Goosen sem er frá Suður-Afríku en Goosen lék á 74 höggum í dag líkt og hann gerði í gær. Els er í fimmta sæti heimslistans í golfi en Goosen er í 26. sæti heimslistans.

Birgir er á betra skori en Argentínumaðurinn Angel Cabrera sem sigraði á opna bandaríska meistaramótinu á þessu ári. Cabrera er samtals á 9 höggum yfir pari en hann lék á 80 höggum í gær og 73 höggum í dag. Cabrera er í 14. sæti heimslistans.

Skorkort Birgis. 

Staðan á mótinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert