Það virðist hafa góð áhrif á kylfinginn Greg Norman að hann hefur ákveðið að ganga í hjónaband með tenniskonunni fyrrverandi Chris Evert frá Bandaríkjunum. Tilkynnt var með formlegum hætti í dag að þau hefðu trúlofað sig s.l. sunnudag en Norman er á meðal keppenda á Suður-Afríkumeistaramótinu þar sem að Birgir Leifur Hafþórsson er á meðal keppenda.
„Hvíti Hákarlinn“, eins og Norman er oftast kallaður, hefur ekki látið mikið að sér kveða á undanförnum árum á atvinnumótaröðum en hann lék á 70 höggum á öðrum keppnisdegi Suður-Afríkumeistaramótsins og er hann á meðal efstu manna á einu höggi yfir pari samtals.
Norman og Evert eru bæði 52 ára gömul en Norman hefur tvívegis sigrað á opna breska meistaramótinu og hann hefur sigrað á 88 atvinnumótum á ferlinum. Evert var á sínum tíma í fremstu röð á heimsvísu í tennisheiminum en hún vann 18 stórmót á ferlinum.
Evert hefur sett á laggirnar tennisskóla við Pearl Valley þar sem að Suður-Afríkumeistaramótið fer fram en Norman mun taka þátt í að byggja upp golfvöll við Pearl Valley sem verður samtengdur Jack Nicklaus-vellinum sem Birgir Leifur og aðrir keppendur eru að glíma við þessa dagana við Pearl Valley.
Norman og fyrrum eiginkona hans, Laura, hafa komist að samkomulagi vegna skiptingu á eignum þeirra en þau skiptu á milli sín verðmætum sem námum um 32 milljörðum kr. Evert hefur tvívegis áður verið í hjónabandi, fyrst með tenniskappanum John Lloyd og síðar með Andy Mill sem keppti á heimsbikarmótum í skíðaíþróttum.