Birgir Leifur Hafþórsson endaði í 50.-57. sæti af þeim 69 kylfingum sem komust í gegnum niðurskurðinn á Suður-Afríku meistaramótinu í golfi á Evrópumótaröðinni. Birgir lék á 12 höggum yfir pari samtals (79-73-75-73) en hann fékk aðeins 8 fugla á hringjunum fjórum, 49 pör, 11 skolla og fjórar brautir lék hann á skramba (+2) eða verr.
Birgir segir að aðstæður hafi verið erfiðar alla fjóra keppnisdagana á Suður-Afríku meistaramótinu og það hafi einkennt skor keppenda þar sem að heimamaðurinn James Kingston sigraði á 4 höggum undir pari. Oliver Wilson frá Englandi varð annar á 3 höggum undir pari og Darren Clarke deildi þriðja sætinu með þremur öðrum kylfingum á 1 höggi undir pari.
Gamla hetjan Greg Norman eða "Hvíti hákarlinn" endaði í 7. sæti ásamt fleiri kylfingum en hann lék á pari vallar. Helstu skrautfjaðrir mótsins, Suður-Afríkumennirnir Ernie Els og Retief Goosen, enduðu á 5 höggum yfir pari og enduðu þeir í 16.-20. sæti. Angel Cabrera frá Argentínu sem sigraði á Opna bandaríska meistaramótinu fyrr á þessu ári endaði á 7 höggum yfir pari vallar.
„Við vorum að berjast við vindinn alla fjóra dagana en ég var mjög sáttur við hugarfarið og baráttuna hjá mér á þessu móti,“ sagði Birgir Leifur við mbl.is í dag. Að hans mati voru upphafshöggin sterkasta vopnið á mótinu en það var margt annað sem hefði mátt vera betra. „Ég var ekki að hitta eins margar flatir og áður í tilætluðum höggafjölda. Höggin með járnkylfunum voru ekki eins nákvæm hjá mér og áður og það er erfiðara að ná góðu skori ef sá þáttur er ekki í lagi,“ bætti Birgir við.
Hann leikur á ný á Evrópumótaröðinni þann 10. janúar á móti sem fram fer í Suður-Afríku en mikil ferðalög einkenna Evrópumótaröðina þar til í mars á næsta ári þegar byrjað verður að keppa á völlum í Evrópu.