Fáir vissu hver bandaríski kylfingurinn Rocco Mediate var áður en Opna bandaríska meistaramótið hófst á Torrey Pines vellinum s.l. fimmtudag. Mediate hefur leikið á PGA-mótaröðinni í yfir tvo áratugi og á þeim tíma hefur hann „önglað“ saman um einum milljarði í verðlaunafé og sigrað á 5 mótum en þrátt fyrir það var hann ekki á meðal þekktustu kylfinga heims.
Það má með sanni segja að Mediate hafi unnið hug og hjörtu allra þeirra sem fylgdust með gangi mála á lokadögum Opna bandaríska meistaramótsins þar sem að 45 ára gamall bakveikur og höggstuttur kylfingur var nærri því búinn að sigra besta kylfing sögunnar – Tiger Woods.
„Ég gat ekki meira og teighöggið í bráðabananum var lélegt. Á þeim tíma átti ég ekki meiri orku en ég er stoltur af því sem ég gerði. Ég veitti besta kylfing heims harða keppni og ef púttin á fyrstu holunum hefðu dottið ofaní hefðu úrslitin kannski orðið önnur. Þetta var frábær leikur og ég get sagt sögur sem aðrir geta ekki sagt af viðureignum þeirra við Tiger Woods.
Fyrir sigurinn fékk Tiger Woods um 106 milljónir kr. en Rocco Mediate fékk 64 milljónir kr. Lee Westwood frá Englandi varð þriðji og fékk hann um 40 milljónir kr. fyrir þriðja sætið.