Björgvin Þorsteinsson, sexfaldur Íslandsmeistari í golfi, hætti leik eftir aðeins sex holur á Íslandsmótinu í höggleik sem haldið er á Garðavelli á Akranesi en mótið hófst í dag.
Björgvin, sem er í lyfjameðferð vegna krabbameins, bað um að fá að nota golfbíl á mótinu sem var hans 52. í röð en þeirri beiðni var hafnað af Golfsambandi Íslands.
„Ég hætti eftir sex holur. Það er pirringur út í þetta lið sem hafði sitt að segja. Í hreinskilni sagt - þá var maður ekki beint upplagður til golfleiks,“ sagði Björgvin við mbl.is í dag.
Aðspurður hvort hann hefði orðið fyrir vonbrigðum með málalyktir svaraði Björgvin.
„Ég veit ekki hvort vonbrigði sé orðið yfir það, ég er eiginlega gáttaður á framkomu stjórnarmanna og þeirra sem ráða innan Golfsambands Íslands. Mér finnst þetta vera íþróttinni til skammar hvernig þeir koma fram,“ sagði Björgvin.
„Golfið snýst um það að slá kúluna. Þetta er ekki keppni í göngu. Vitaskuld er gott að vera með gott þrek en hver kýs það að vera á bíl ef hann getur gengið? Það gerir ekki nokkur maður,“ sagði Björgvin.
Samkvæmt keppnisskilmálum fyrir Íslandsmótið í höggleik kemur fram í 4. gr. að mótsstjórn eða dómari geti veitt mönnum undanþágu á að ferðast í einhverskonar faratæki en þeir aðilar voru ekki tilbúnir til þess.
„Þeir telja sér ekki fært að veita mönnum sem er eins komið fyrir og mér heimild til þess að nota þessa undanágu í reglunum,“ sagði Björgvin.
Aðspurður hvað honum finnst um þau rök að líkja golfbíl kylfingsins við sundblöðkur keppnismanneskju í sundi segir Björgvin viturlegra að líkja bílnum við kút.
„Kúturinn tryggir það að maðurinn drukkni ekki á leiðinni en getur varla bætt árangur hans. Sama á við um bílinn. Hann hjálpar þreklausum eða fötluðum manni við að komast hringinn," sagði Björgvin Þorsteinsson.
Fyrr í sumar var Kára Erni Hinrikssyni, kylfingi úr Mosfellsbæ, sem barist hefur við krabbamein í fjöldamörg ár, meinað að nota golfbíl á Eimskipsmótaröðinni í golfi þegar mót á mótaröðinni var haldið í fyrsta skipti á hans heimavelli í Mosfellsbæ.