Sexföldum meistara meinað að nota golfbíl

Ljósmynd/gsi

Mótstjórn Íslandsmótsins í höggleik, sem hefst á Garðavelli á Akranesi í dag, hafnaði í gærkvöld beiðni Björgvins Þorsteinssonar, sexfalds Íslandsmeistara í golfi, um að fá að nota golfbíl á Íslandsmótinu.

Björgvin fór fram að fá að nota golfbílinn þar sem hann á erfitt með gang þar sem hann glímir við krabbamein og hefur verið í lyfjameðferð síðan í byrjun maí. Þrátt fyrir að mótstjórnin hafi ekki orðið við beiðni Björgvins ætlar þessi 62 ára gamla goðsögn í íslensku golfi að þátt í mótinu og keppir þar með á Íslandsmótinu 52. árið í röð.

„Ég bregst ekki við þessu með neinum hætti nema að ég ætla að spila,“ sagði Björgvin við Morgunblaðið í gærkvöld. Spurður hvort hann hafi búist við þessu svari sagði Björgvin; „Í hreinskilni sagt þá kom þetta svar mér ekkert á óvart en þetta er vitlaust. En miðað við hvernig var farið með þennan strák í Mosfellsbænum þá vildi ég láta reyna á þetta með þessum hætti. Það var illa farið með hann,“ sagði Björgvin en í síðasta mánuði var krabbameinsveikum kylfingi, Kára Erni Hinrikssyni, meinað að nota golfbíl á móti á Hlíðavelli í Mosfellsbæ en mótið var hluti af Eimskipsmótaröðinni.

„Ég ætla að ganga eins og ég get og láta bara á það reyna hvort ég komist í gegnum þetta. Það fer örugglega að síga í á öðrum hring,“ sagði Björgvin, sem á rástíma klukkan 9.20.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka