„Strákarnir sem ég keppi við hérna úti eru allt frábærir kylfingar og því er það stórt og gott skref að vinna háskólamót,“ sagði Rúnar Arnórsson, úr Keili, þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans.
Hann var þá búinn að sinna tveimur viðtölum þar ytra, annars vegar við dagblað á svæðinu og hins vegar við vefsíðu skólans. Rúnar sigraði í fyrsta skipti á móti í háskólagolfinu í Bandaríkjunum á þriðjudagskvöldið en hann er á öðru ári í University of Minnesota.
Þeir eru orðnir nokkrir íslensku kylfingarnir sem unnið hafa háskólamót í gegnum tíðina en verulega hefur fjölgað í þeim hópi síðustu fimm árin eða svo. Systir Rúnars, Signý Arnórsdóttir, sigraði á móti árið 2010 og var fyrst íslenskra kvenna til að afreka það eftir því sem Morgunblaðið kemst næst.
Í tilfelli Rúnars vekur fyrsti hringur hans í mótinu mesta athygli og ekki að ástæðulausu. Rúnar fór hamförum á Barona Creek-vellinum í Kaliforníu og lék hann á 62 höggum sem er tíu höggum undir pari.
Ekki veit Morgunblaðið til þess að fleiri Íslendingar en Örn Ævar Hjartarson hafi leikið á betra skori í móti erlendis en hann lék á 60 höggum á New Course-vellinum í St. Andrews í St. Andrews Links Trophy-mótinu. Frammistaðan er merkileg í því ljósi en auk þess er um skólamet að ræða.
„Þegar þú nefnir þetta þá hugsar maður fyrst út í hver sé númer eitt og ég held að flestir afrekskylfingar á Íslandi þekki afrek Arnar Ævars. Auðvitað er gaman að heyra þetta og vita til þess að maður hafi skrifað nafn sitt á einhvern stað þar sem hægt verði að finna það í framtíðinni. Einnig er skemmtilegt að setja skólamet en það var sett árið 1999 og er því orðið sautján ára gamalt. Auk þess sýnir þetta hvers ég er megnugur á golfvellinum og gefur vísbendingu um hvar ég stend í golfinu. Í golfinu leggur maður mikla vinnu í æfingar og maður getur ekki horft á annað en skorið sem maður skilar inn sem viðmið,“ sagði Rúnar.
Viðtalið í heild er í íþróttablaði Morgunblaðsins á fimmtudag.