„Stórt og gott skref“

Rúnar Arnórsson.
Rúnar Arnórsson. mbl.is/Styrmir Kári

„Strákarnir sem ég keppi við hérna úti eru allt frábærir kylfingar og því er það stórt og gott skref að vinna háskólamót,“ sagði Rúnar Arnórsson, úr Keili, þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans.

Hann var þá búinn að sinna tveimur viðtölum þar ytra, annars vegar við dagblað á svæðinu og hins vegar við vefsíðu skólans. Rúnar sigraði í fyrsta skipti á móti í háskólagolfinu í Bandaríkjunum á þriðjudagskvöldið en hann er á öðru ári í University of Minnesota.

Þeir eru orðnir nokkrir íslensku kylfingarnir sem unnið hafa háskólamót í gegnum tíðina en verulega hefur fjölgað í þeim hópi síðustu fimm árin eða svo. Systir Rúnars, Signý Arnórsdóttir, sigraði á móti árið 2010 og var fyrst íslenskra kvenna til að afreka það eftir því sem Morgunblaðið kemst næst.

Í tilfelli Rúnars vekur fyrsti hringur hans í mótinu mesta athygli og ekki að ástæðulausu. Rúnar fór hamförum á Barona Creek-vellinum í Kaliforníu og lék hann á 62 höggum sem er tíu höggum undir pari.

Skólametið orðið 17 ára

Ekki veit Morgunblaðið til þess að fleiri Íslendingar en Örn Ævar Hjartarson hafi leikið á betra skori í móti erlendis en hann lék á 60 höggum á New Course-vellinum í St. Andrews í St. Andrews Links Trophy-mótinu. Frammistaðan er merkileg í því ljósi en auk þess er um skólamet að ræða.

„Þegar þú nefnir þetta þá hugsar maður fyrst út í hver sé númer eitt og ég held að flestir afrekskylfingar á Íslandi þekki afrek Arnar Ævars. Auðvitað er gaman að heyra þetta og vita til þess að maður hafi skrifað nafn sitt á einhvern stað þar sem hægt verði að finna það í framtíðinni. Einnig er skemmtilegt að setja skólamet en það var sett árið 1999 og er því orðið sautján ára gamalt. Auk þess sýnir þetta hvers ég er megnugur á golfvellinum og gefur vísbendingu um hvar ég stend í golfinu. Í golfinu leggur maður mikla vinnu í æfingar og maður getur ekki horft á annað en skorið sem maður skilar inn sem viðmið,“ sagði Rúnar.

Viðtalið í heild er í íþróttablaði Morgunblaðsins á fimmtudag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert