Annar tónn í Rory McIlroy

Rory McIlroy á blaðamannafundi í Bandaríkjunum í dag.
Rory McIlroy á blaðamannafundi í Bandaríkjunum í dag. AFP

Norður-Írinn Rory McIlroy segist hafa verið ánægður með hvernig golfið kom út á Ólympíuleikunum í Ríó. Hann var gagnrýndur mjög fyrir að hætta við keppni á leikunum auk þess sem ummæli hans fyrir leikana féllu í grýttan jarðveg. 

McIlroy sagði fyrir leikana að golfið myndi líklega týnast á leikunum. Hann myndi sjálfur ekki einu sinni horfa á keppnina í sjónvarpi heldur horfa á íþróttagreinarnar sem skipta máli eins og hann orðaði það. Nefndi hann í því samhengi frjálsar og sund. 

McIlroy ræddi við fjölmiðlamenn í dag og nú er komið annað hljóð í strokkinn. „Fleiri áhorfendur virðast hafa mætt á golfið heldur en frjálsar. Það var ánægjulegt að sjá. Þegar ég sá áhorfendafjöldann og útkomuna þá var ég ánægður með að hafa á vissan hátt haft rangt fyrir mér.“

Justin Rose, samherji McIlroy úr Ryderliði Evrópu, vann gullverðlaun í golfi á leikunum. „Maður getur leitað að ummælum hans um Ólympíuleikana nokkur ár aftur í tímann og hann var alltaf mjög spenntur fyrir því að keppa á leikunum. Ég held því að hann hafi verið heppilegur sigurvegari þegar uppi var staðið,“ sagði Rory McIlroy. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert