„Golf er frábær fjölskylduíþrótt“

Haukur Örn Birgisson, forseti GSÍ, á velli elsta klúbbs landsins, …
Haukur Örn Birgisson, forseti GSÍ, á velli elsta klúbbs landsins, Golfklúbbs Reykjavíkur í Grafarholti. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Íslendingar kynntust golfíþróttinni á fyrri hluta síðustu aldar á ferðalögum erlendis, líklega einkum í vöggu íþróttarinnar, Bretlandi. 

Þegar heim kom hófu þeir að slá kúlur úti á túni við frumstæð skilyrði en alvaran varð smám saman meiri eftir að skoskir menn, sem kunnu íþróttina, fluttu til landsins og hófu að leiðbeina heimamönnum. Það var um 1935, að sögn Hauks Arnar Birgissonar, forseta Golfsambands Íslands. Rætt var við hann í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Eftir að stofnaðir höfðu verið þrír golfklúbbar, í Reykjavík, á Akureyri og í Vestmananeyjum, var GSÍ stofnað 14. ágúst árið 1942. Á morgun, mánudag, eru því 75 ár frá stofnun þessa elsta sérsambands Íþróttasambands Íslands.

Höfðatölu-heimsmet

Vellir voru ekki margir framan af og fáar holur á hverjum. Fyrsti golfvöllurinn var í Laugardalnum í Reykjavík en síðar fluttu kylfingar sig upp í Öskjuhlíð. Aðstaða spratt síðan upp smám saman hér og þar og í dag eru 65 golfvellir á Íslandi, sem er heimsmet. „Ekkert land í heimi er með fleiri golfvelli miðað við höfðatölu,“ segir Haukur Örn við Sunnudagsblað Morgunblaðsins.

Fjöldi Íslendinga hefur stundað golf í gegnum tíðina en vinsældir íþróttarinnar hafa vaxið gríðarlega hér á landi á einum og hálfum áratug, að sögn Hauks. „Fyrir fimmtán árum varð sprenging! Síðan hefur skráðum félagsmönnum í golfklúbbum fjölgað úr 8.000 í rúmlega 17.000. Fjöldinn hefur því rúmlega tvöfaldast.“

Þá eru ekki taldir þeir sem spila golf án þess að vera félagar í klúbbi. Haukur telur að sá hópur telji annað eins og jafnvel rúmlega það, þannig að um 40.000 manns spili golf að staðaldri hér á landi. Liðlega 10% þjóðarinnar, sem hann segir einstakt.

Á árum áður var golf töluvert tengt við snobb, talið heldrimannasport og er sums staðar enn. Þó ekki hér heima.

„Íslenskri golfhreyfingu hefur tekist, sem ekki er raunin alls staðar, að gera golf að raunverulegri almenningsíþrótt. Víða er litið á golf sem sport fyrir miðaldra, efnað fólk en hér leika allir golf,“ segir Haukur. „Segja má að hér leiki fólk golf frá fjögurra ára aldri þar til það verður 104 ára. Á Íslandi er engin stéttaskipting og í golfinu er ekki hægt að merkja að iðkun fari eftir kyni, aldri eða starfsstétt og það tel ég vera eitt af því sem stuðlar að þeirri velgengni sem golfið nýtur hér á landi. Önnur sérstaða er sú að hérlendis þurfa kylfingar ekki að vera meðlimir í klúbbi til að spila á tilteknum velli. Það á sinn þátt í því hve íþróttin er vinsæl hér á landi. Klúbbarnir eru opnir almenningi.“

Haukur tekur þannig til orða að golf sé í raun blanda af tvennu; „golf er keppnisíþrótt á hæsta stigi en líka mjög gott afþreyingarsport. Við höfum lengi unnið að því að fjölga konum, börnum og unglingum í golfi og á síðustu árum, þegar kylfingum hefur fjölgað mikið, hefur konum fjölgað úr því að vera um 10% í um þriðjung þeirra sem leika golf“.

Amman og ömmubarnið

Hann bendir á að golfíþróttin njóti töluverðrar sérstöðu. „Golf er frábær fjölskylduþrótt þar sem allir geta leikið saman. Aðrar greinar bjóða ekki upp á að áttræð amma keppi við barnabarn sitt! Á golfvellinum er það hægt vegna forgjafarkerfisins. Þá er golf gríðarlega gott út frá lýðheilsusjónarmiðum. Að leika 18 holu golfvöll er göngutúr upp á 10 til 12 kílómetra í hvert sinn, góð hreyfingu úti í náttúrunni og því ekki síst gott fyrir eldra fólk að stunda golf; það getur skipt sköpum varðandi það að viðhalda góðri heilsu lengur en ella og sænsk rannsókn sýndi meira að segja fram á það fyrir nokkrum árum að þeir sem leika golf lifa að jafnaði fjórum árum lengur en þeir sem gera það ekki!“

„Stórt stökk fram á við“

Íslendingar hafa í gegnum árin átt góða kylfinga, sumir hafa staðið sig bærilega á alþjóðavettvangi og nokkrir reyndu fyrir sér í atvinnumennsku á árum áður.

„Á síðustu sex til sjö árum hefur hins vegar verið tekið stórt stökk fram á við,“ segir forseti GSÍ. „Það má að minnsta kosti að hluta til rekja til þess að golfhreyfingin í heild sinni setti sér afreksstefnu árið 2011. Þar voru sett fram ákveðin markmið og skilgreindar leiðir til að ná þeim. Allir golfklúbbar sem stunda afreksstarf hafa unnið markvisst að þessu, ásamt GSÍ, og það hefur skilað sér sérlega vel. Á síðustu árum höfum við átt nokkra unga kylfinga sem æfa og spila í bandarískum háskólum við mjög góðar aðstæður, sem skiptir mjög miklu máli, og undanfarin tvö ár höfum við átt keppendur í fremstu röð og það var sérstaklega ánægjulegt þegar Ólafía Þórunn Kristinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir tryggðu sér þátttökurétt á tveimur sterkustu mótaröðum kvenna í heiminum. Það vekur eðlilega mikla athygli, þær eru frábærar fyrirmyndir og í kjölfarið hefur fjölgað börnum og unglingum – sérstaklega stelpum – sem vilja prófa golf, sem er frábært.“

Haukur Örn Birgisson segir Golfsamband Íslands við hestaheilsu á tímamótunum.

„Á sama tíma og við njótum mikillar velgengni glíma sumar þjóðir við það vandamál að kylfingum hefur fækkað mikið. Þetta á til dæmis við í vöggu golfsins, Englandi, og Skotlandi og að einhverju leyti í Bandaríkjunum; þessar þjóðir hafa rutt brautina í gegnum tíðina. Íþróttin er alls ekki í hættu í þessum löndum, hún er enn gríðarlega vinsæl en nú blæs á móti.

Haukur Örn situr í stjórn evrópska golfsambandsins þar sem menn velta gjarnan vöngum yfir stöðunni. „Ég er á þeim vettvangi gjarnan spurður að því hvað skýri þá velgengni sem við njótum á sama tíma og aðrir glími við þessi vandamál. Stóru þjóðirnar horfa til okkar í þessu sambandi enda væri fráleitt af þeim að gera það ekki. Svarið er líklega ekki einfalt en ég get þó bent á það að hér á landi er golfið hreinræktuð almenningsíþrótt. Aðrir gætu þurft að hugleiða að vera frjálslyndari í sinni iðkun og í því hvernig hreyfingin starfar. Síðan er það eitthvað við Íslendinga sem gerir það að verkum að við erum golfsjúk þjóð! Ég er ekki viss um að ég geti útskýrt hvers vegna það er.“

Framtíðin björt

Annað sem Haukur segist mjög stoltur af er hve golfvellir eru víða um land. „Varla er hægt að keyra í hálftíma án þess að sjá golfvöll og við erum einmitt mjög montin af því að allir landsmenn hafi tækifæri til þess að spila. Eftir að ferðamönnum fjölgaði gífurlega hér á landi fara þeir mikið í golf og margir fara mjög fögrum orðum um aðstæður. Hróður Íslands sem áfangastaðar fyrir erlenda kylfinga fer því víða sem er vel, enda íslenskir vellir mjög góðir. Góðu fagfólki í golfvallafræðum fjölgar stöðugt og vellir eru því betri frá því fyrr á vorin og lengra fram á haustið en áður.“

Margt hefur því áhrif á hve staðan er góð í dag hérlendis. „Við horfum mjög björtum augum til framtíðar,“ segir Haukur Örn Birgisson, forseti Golfsambands Íslands.

Forseti GSÍ tekur „sjálfu“ með nýkrýndum Íslandsmeisturum, atvinnukylfingunum Axel Bóassyn …
Forseti GSÍ tekur „sjálfu“ með nýkrýndum Íslandsmeisturum, atvinnukylfingunum Axel Bóassyn og Valdísi Þóru Jónsdóttur, að loknu Íslandsmótinu í höggleik á Hvaleyrarvelli í lok síðasta mánaðar. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
Birgir Leifur Hafþórsson og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Íslandsmeistarar í höggleik …
Birgir Leifur Hafþórsson og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Íslandsmeistarar í höggleik 2016 Akureyri. golf.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka