Hola í höggi bjargaði hringnum hjá Ólafíu

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á 13. holunni í dag á ANA …
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á 13. holunni í dag á ANA Inspiration-risamótinu. AFP

Atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir gerði sér lítið fyrir og fór á holu í höggi á 17. holunni á ANA Inspirati­on-mótinu sem fram fer í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum þessa dagana en mótið er fyrsta risamót ársins í golfi og er hluti af bandarísku LPGA-mótaröðinni sem er sú sterkasta í heimi.

Þrátt fyrir sólskinið í Kaliforníu skiptust á skin og skúrir í spilamennsku Ólafíu í dag en hún endaði algjörlega ótrúlegan hring á parinu og í 28. sæti er hún kom í hús. Sú staða gæti breyst lítillega eftir því sem líður á kvöldið.

Ólafía fékk sex skolla og aðeins tvo fugla á hringnum í dag en tókst samt að ljúka leik á parinu. Ólafía fékk skolla á 2. og 3. holu og þann þriðja á 7. holu og var á þremur höggum yfir pari er hún var búin með 10 holur.  Á 11. holu birti til er hún fékk glæsilegan örn en við tóku eftir það tveir skollar í röð sem þýddi að hún var aftur komin á +3 og var hún þá með öftustu kylfingum.

Fugl á 14. holunni lagaði stöðuna lítillega en skolli á 16. holunni kom henni aftur á þrjá yfir, skor sem hún virtist hreinlega eiga að enda á í dag. Ólafía er hins vegar mikill karakter og svaraði skollanum með holu í höggi á 17. holu. Íþróttamaður ársins 2017 lokaði svo hringnum með stæl á fugli og hringinn þar með á pari.

Dagurinn var afskaplega sveiflukenndur hjá Ólafíu og verður því 28. sætið er hún kom í hús að teljast afar góður árangur. Ólafía leikur annan hring sinn á morgun og eftir það verður skorið niður í hópi keppenda sem leika seinni hringina tvo.

ANA Inspirati­on-mótið er eitt ri­sa­mót­anna fimm í golfi kvenna og var Ólafía fyrst Íslend­inga til að keppa á því í dag. Hún lék á þrem­ur ri­sa­mót­um í fyrra, eða KPMG-mót­inu, Opna breska meist­ara­mót­inu og Evi­an-meist­ara­mót­inu. Best­um ár­angri náði hún á síðast­nefnda mót­inu þar sem hún hafnaði í 48. sæti.

Heild­ar­verðlauna­fé á ANA Inspirati­on er 2,8 millj­ón­ir Banda­ríkja­dala eða sem nem­ur 283 millj­ón­um króna. Það er hin suður-kór­eska Ryu So-yeon sem á titil að verja eft­ir sig­ur í bráðabana í fyrra, en hún fékk 405.000 dali fyr­ir sig­ur­inn, sem í dag jafn­gild­ir um 40 millj­ón­um króna.

Ólafía í Kaliforníu 1. hringur opna loka
kl. 18:41 Textalýsing 18 - FUGL Ólafía endar þennan ótrúlega hring á fugli og þar með á parinu. Alveg hreint magnað! Staðan: PAR, 28. sæti.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert