KPMG-Hvaleyrarbikarinn fór af stað í dag en mótið er hlui af Eimskipsmótaröðinni í golfi.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Keili er efst kvenkylfinga eftir fyrsta hringinn sem var leikinn á Hvaleyrarvelli í dag en hún lék á 72 höggum eða einu yfir pari. Næst er Berglind Björnsdóttir úr GR á 74 höggum eða þremur yfir pari. Þriðja er Helga Kristín Einarsdóttir úr GK á 76 höggum eða fimm yfir pari.
Í karlaflokki er Egill Ragnar Gunnarsson úr GKG með nauma forystu eftir fyrsta hring. Hann lék hringinn á 68 höggum eða þremur undir pari en þeir Henning Darri Þórðarsson og Rúnar Arnórsson úr GK eru báðir á 69 höggum eða tveimur undir pari.
Annar hringurinn verður leikinn á morgun, laugardag, áður en keppni lýkur á þriðja og síðasta hring á sunnudaginn.