Kylfingarnir Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Axel Bóasson úr Keili tóku forystuna á fyrsta keppnisdegi Íslandsmótsins í golfi sem hófst í Vestmannaeyjum í gær. Guðrún hefur tvö högg í forskot en Axel er með eitt högg í forskot.
Guðrún Brá lék á 70 höggum eða á pari vallarins í Herjólfsdalnum. Fékk hún fjóra fugla, fjóra skolla og tíu pör á hringnum. Guðrún hefur um nokkurra ára skeið verið á meðal bestu kvenkylfinga landsins en hefur þó ekki orðið Íslandsmeistari í fullorðinsflokki. Í þetta skipti var henni spáð titlinum og er hún til alls líkleg. Saga Traustadóttir úr GR lék á 72 höggum og Helga Kristín Einarsdóttir úr Keili var á 73 höggum. Þrír kylfingar eru fimm höggum á eftir Guðrúnu en það eru þær Hafdís Alda Jóhannsdóttir, Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir og Gerður Hrönn Ragnarsdóttir.
Axel skilaði inn virkilega góðu skori og var á 65 höggum eða fimm undir pari. Axel fékk einn örn, fimm fugla, tíu pör og tvo skolla. Axel er núverandi Íslandsmeistari og virðist líklegur til að gera atlögu að sínum þriðja Íslandsmeistaratitli í fullorðinsflokki. Björn Óskar Guðjónsson úr Mosfellsbæ og Aron Emil Gunnarsson frá Selfossi koma næstir aðeins höggi á eftir. Sá síðarnefndi er einungis 17 ára gamall og því um frábæran hring að ræða hjá honum. Aron var fyrir hringinn með 3,5 í forgjöf en hann lauk leik með því að fá örn á 18. holu sem er par 5.
Sjá greinina í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.