Bandaríkjamaðurinn Gary Woodland fór á kostum á öðrum hring á Opna bandaríska meistaramótinu í golfi. Hann lék á 65 höggum, eða sex höggum undir pari og er hann með tveggja högga forystu á Justin Rose.
Woodland fékk sex fugla og ekki einn einasta skolla á 18 holum í gær og lék af fádæma öryggi. Rose lék á 70 höggum og fékk þrjá fugla og tvo skolla á hringnum. Louis Oosthuizen er í þriðja sæti á sex höggum undir pari.
Tiger Woods er sem stendur í 48. sæti á tveimur höggum yfir pari. Hann er byrjaður á þriðja hring, þar sem hann hefur fengið einn skolla á fyrstu þremur holunum.
Woodland hefur unnið þrjú mót á PGA-mótaröðinni á ferlinum, en besti árangurinn hans á risamóti kom í fyrra á PGA-meistaramótinu. Þá hafnaði hann í sjötta sæti.