Axel Bóasson fór með sigur af hólmi á B59 Hotel-mótinu í golfi sem fram fór á Garðavelli á Akranesi um helgina. Um er að ræða fyrsta mót ársins í golfmótaröð Golfsambands Íslands á árinu 2020.
Axel tryggði sér sigurinn með góðum öðrum og þriðja hring eftir erfiða byrjun, en hann lék á 73 höggum á fyrsta hring mótsins á föstudag og var sex höggum frá efstu mönnum.
Axel lék annan hringinn í gær á 66 höggum, best allra, og loks þriðja hringinn í dag á 71 höggi. Lauk hann því leik á sex höggum undir pari.
Haraldur Franklín Magnús varð annar á fimm höggum undir pari. Haraldur var með eins höggs forskot fyrir lokahringinn. Haraldur lék hins vegar á fjórum höggum yfir pari í dag og varð að sætta sig við annað sætið. Úrslitin réðust á lokaholunni þar sem Axel lék á pari en Haraldur fékk skolla, eins og Hlynur Bergsson sem var einu höggi á eftir þeim.
Guðmundur Rúnar Hallgrímsson, Hlynur Bergsson og Hákon Örn Magnússon voru jafnir í þriðja til fimmta sæti á fjórum höggum undir pari en Hákon hafði á tímabili náð Haraldi Franklín á lokahringnum og deilt efsta sætinu með honum.