Bandaríkjamaðurinn Brooks Koepka er kominn á sigurbraut á ný á golfvellinum eftir að hafa glímt við meiðsli og sigraði á Waste Management Phoenix Open í gærkvöld.
Koepka virðist vera að nálgast sitt fyrra form því hann lék afar vel og lauk leik á samtals 19 höggum undir pari. Fékk hann tvo erni á lokahringnum í gær og lék á 65 höggum.
Xander Schauffele var efstur fyrir lokadaginn og lauk leik höggi á eftir Koepka en það gerði einnig Kyong-Hoon Lee frá S-Kóreu.
Koepka sigraði síðast á móti sumarið 2019 en hann náði sér aldrei almennilega á strik í fyrra.
Koepka sigraði fjórum sinnum á risamótum á skömmum tíma eða 2017, 2018 og 2019. Hann virðist nú vera til alls líklegur á þessu ári.
Jordan Spieth lék á 17 höggum undir pari í mótinu og hefur ekki sýnt álíka góða frammistöðu í langan tíma en Spieth var langt frá sínu besta á síðasta ári. Margir sterkir kylfingar voru með í mótinu og þeir Rory McIlroy, Justin Thomas og Jon Rahm voru á 13 undir pari svo dæmi sé tekið.