Bandaríski kylfingurinn Tiger Woods er með alvarlega áverka á báðum fótum en er heppinn að vera á lífi segja lögreglumenn sem komu að slysinu. Bifreið Woods valt nokkra hringi en svo virðist sem hann hafi misst stjórn á bifreiðinni. Hann var hvorki undir áhrifum áfengis né lyfja þegar slysið varð snemma í gærmorgun skammt frá Los Angeles.
Woods fór í aðgerð í gær en um alvarleg meiðsl er að ræða á neðri hluta hægri fótleggs og ökkla.
Að sögn læknis er Woods vakandi og á batavegi á sjúkrahúsi.
Lögreglan segir að Woods hafi ekið of hratt miðað við aðstæður en slysið varð á þekktum slysastað. Lögreglumaðurinn Carlos Gonzalez sem kom fyrst á slysstað segir að Woods hafi verið heppinn að sleppa lifandi en hann var fastur í bifreiðinni þegar lögregla kom á vettvang.
— Tiger Woods (@TigerWoods) February 24, 2021