„Ég þurfti líka á fríi að halda eins og aðrir,“ sagði Valdís Þóra Jónsdóttir, margfaldur Íslandsmeistari í golfi og fyrrverandi atvinnukylfingur, í Dagmálum, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.
Valdís Þóra Jónsdóttir hefur verið atvinnukylfingur frá árinu 2013 en ákvað á dögunum að leggja atvinnukylfurnar á hilluna vegna langvarandi meiðsla.
Hún viðurkennir að það hafi fylgt því mikið álag að vera atvinnukona í íþróttinni og að hún hafi oft þurft á fríi að halda, sem var oft og tíðum hægara sagt en gert.
„Ég og við þurfum líka að endurhlaða batteríin eins og aðrir því við fáum ekki helgarfrí eins og margir aðrir sem vinna venjulega vinnuviku,“ sagði Valdís.
„Frídagarnir hjá manni voru oftast á mánudögum og maður eyddi þeim í að ferðast. Það er ekki mikið frí að ferðast á milli landa enda mikið líkamlegt álag.
Þriðjudag spilaði maður æfingahring og miðvikudagurinn fór í lokaundirbúning fyrir mótið fram undan með tilheyrandi styrktarþjálfun og heimsókn til sjúkraþjálfara.
Fimmtudagur átján holur plús upphitun og að slá sig niður eftir hringinn, það er sama uppskrift á föstudeginum og ef maður komst í gegnum niðurskurðinn voru laugardagarnir og sunnudagurinn eins.
Ef ekki þá fóru laugardagurinn og sunnudagurinn í að fínpússa allt það sem fór úrskeiðis og svo var maður sestur aftur upp í vél á mánudeginum til þess að fljúga á næsta keppnisstað þar sem sama rútína tók við,“ bætti Valdís við.
Viðtalið við Valdísi í heild sinni má nálgast með því að smella hér.