Atvinnukylfingurinn Haraldur Franklín Magnús er öruggur í gegnum niðurskurðinn á Dimension Data-mótinu í Suður-Afríku en mótið er hluti af Áskorendamótaröð Evrópu, þeirri næststerkustu í Evrópu.
Haraldur lék sinn annan hring á mótinu í dag og lék á 69 höggum eða þremur höggum undir pari vallarins. Haraldur lék fyrsta hringinn á 70 höggum, tveimur undir pari, og er samtals á fimm höggum undir pari.
Ekki náðu allir kylfingar að ljúka leik í dag sökum myrkurs og ræðst það í fyrramálið hver niðurskurðarlínan verður. Haraldur er sem stendur í 33.-45. sæti.