Efsti kylfingur heimslistans Dustin Johnson frá Bandaríkjunum glímir við hnémeiðsli og dró sig út úr Byron Nelson mótinu sem hefst á PGA-mótaröðinni á morgun.
Johnson segist í yfirlýsingu finna fyrir óþægindum í hnénu og í samráði við lækni og sjúkraþjálfara hafi verið tekin sú ákvörðun að hvíla um sinn. Segist hann vera óhress með gang mála en hann þurfi að vera skynsamur.
Að keppnistímabilinu loknu 2019 fór Johnson í hnéaðgerð og fór þá frá í nokkra mánuði. Meiðslin eru því líklega ekki ný af nálinni.
Séu meiðslin ekki alvarleg er líklegt að Johnson haldi því opnu að vera með á PGA-meistaramótinu sem hefst á fimmtudaginn í næstu viku. Er það eitt risamótanna fjögurra og verður að þessu sinni haldið á Kiawah Island í Suður-Karólínu, heimaríki Johnsons.