Spieth reynir við slemmuna

Jordan Spieth á æfingahringnum í Suður-Karólínuríki.
Jordan Spieth á æfingahringnum í Suður-Karólínuríki. AFP

PGA-meistaramótið, eitt af risamótunum fjórum hjá körlunum í golfíþróttinni, hefst á morgun í Suður-Karólínuríki í Bandaríkjunum. 

Mótið fer að þessu sinni fram á Kiawah Island-vellinum sem þykir erfiður viðureignar. PGA-meistaramótið hefur einu sinni farið fram á vellinum og var það árið 2012. Þá sigraði Rory McIlroy með nokkrum yfirburðum. Völlurinn er einnig þekktur fyrir að þar var keppt um Ryder-bikarinn árið 1991 en Bandaríkin unnu þá í keppninni. 

Rory McIlroy þykir líklegastur hjá veðbönkum. Annars vegar vegna þess að hann kunni vel við sig á vellinum árið 2012 og á þaðan góðar minningar. Hins vegar vegna þess að hann sigraði á Wells Fargo í PGA-mótaröðinni fyrir tveimur vikum. Eftir að hafa verið í lægð í nokkurn tíma gæti sá sigur hafa kveikt neistann hjá kappanum. Það sem þykir vinna gegn McIlroy er að hann hefur ekki unnið risamót frá árinu 2014. 

Létt hefur verið yfir Rory McIlroy frá því hann vann …
Létt hefur verið yfir Rory McIlroy frá því hann vann á móti í PGA-mótaröðinni á dögunum. AFP

Jordan Spieth er nú nokkuð í umræðunni. Spieth datt mjög niður um tveggja ára skeið en hefur leikið mjög vel á þessu ári. Hefur verið í baráttunni um sigurinn á mörgum mótum og spilamennskan bendir til að hann geti orðið góður á mótinu. Er það athyglisvert í ljósi þess að Spieth hefur unnið hin þrjú risamótin á ferlinum en ekki PGA-meistaramótið. Hann vantar því sigur á PGA-meistaramótinu til að ná slemmunni, Grand Slam. Því hafa einungis nokkrir kylfingar náð: Jack Nicklaus, Tiger Woods, Ben Hogan, Gary Player og Gene Sarazen. Nokkrir kylfingar sem nú keppa á mótaröðinni eru í þeirri stöðu að sigur á einu risamóti vantar til að ná slemmunni. Fyrir utan Spieth eru það Phil Mickelson og McIlroy. Mickelson hefur ekki unnið á Opna bandaríska meistaramótinu og McIlroy hefur ekki unnið Masters. 

Breiddin er mikil í golfinu og samkeppnin um sigur á risamóti er geysileg. Þar af leiðandi væri hægt að nefna fjölmarga sem gætu blandað sér í baráttuna. Einn kylfingur af Norðurlöndunum þykir líklegur til að gera vel á mótinu og það er Norðmaðurinn Viktor Hovland. Þótt hann sé aðeins á öðru ári í mótaröðinni er eins og hann hafi aldrei unnið við annað en hann þurfti nánast engan aðlögunartíma. Hefur nú þegar unnið á tveimur mótum sem atvinnumaður og er glettilega oft á meðal efstu manna. Enda er Hovland kominn í 11. sæti heimslistans. Einn Norðurlandabúi hefur unnið risamót hjá körlunum en það er Henrik Stenson sem vann The Open Championship árið 2016.

Norðmaðurinn Viktor Hovland vekur æ meiri eftirtekt.
Norðmaðurinn Viktor Hovland vekur æ meiri eftirtekt. AFP

Dustin Johnson er í efsta sæti heimslistans og var frábær seinni hlutann í fyrra. Vann þá á hinu frestaða Mastersmóti í nóvember sem dæmi. Johnson hefur verið rólegur á þessu ári og komst ekki í gegnum niðurskurðinn á Masters í apríl. Í síðustu viku hætti hann við þátttöku á Byron Nelson-mótinu vegna meiðsla í hné. Johnson hefur væntanlega horft til þess í nokkurn tíma að standa sig á PGA-meistaramótinu þetta árið því hann kemur frá Suður-Karólínu. Johnson hefur tvívegis unnið á risamóti. Á Opna bandaríska meistaramótinu 2016 og Masters 2020. 

Dustin Johnson er ekki beinlínis á heimavelli en kemst nokkuð …
Dustin Johnson er ekki beinlínis á heimavelli en kemst nokkuð nálægt því. AFP

Lýsingar á vellinum benda til þess að brautirnar séu ekki sérlega þröngar. En fyrir utan brautirnar bíða víst alls kyns hættur þar sem kylfingarnir geta tapað höggi. Völlurinn er mjög langur af þeim teigum sem notaðir eru á mótinu. Ef vindurinn blæs gætu áhorfendur átt eftir að sjá högglengstu menn eins og Tony Finau, Bryson DeChambeau og álíka kylfinga slá inn á flatir með 3 og 4 járn í höndunum í einhverjum tilvikum sem í seinni tíð er orðið sjaldgæft. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert