Hinn fimmtugi Phil Mickelson á möguleika á því að vera elsti kylfingurinn til að vinna risamót í golfíþróttinni því hann er efstur fyrir lokadaginn á PGA-meistaramótinu sem fram fer í Suður Karólínu í Bandaríkjunum.
Mickelson er samtals á sjö höggum undir pari Ocean-vallarins á Kiawah Island-golfsvæðinu sem þykir afskaplega gott. Völlurinn er með þeim erfiðari sem bestu kylfingar heims þurfa að glíma við og talsverður vindur hefur verið fyrstu þrjá keppnisdagana.
Mickelson lék á tveimur undir pari í gærkvöld og hefur leikið á 70, 69 og 70 höggum. Mickelson var fimm undir pari eftir frábæra spilamennsku á fyrstu tólf holunum í gær en fékk skolla og skramba eftir það. Er hann höggi á undan Brooks Koepka sem lék einnig á 70 höggum í gærkvöld.
Suður-Afríkumaðurinn skemmtilegi Louis Oosthuisen er þriðji á fimm undir pari eftir að hafa leikið á 72 höggum. Þessir þrír hafa allir unnið risamót á ferlinum.
Hideki Matsuyama sem vann Masters, fyrsta risamót ársins í apríl, var í fínum málum eftir tvo hringi. Í gær lék hann hins vegar á 76 höggum og er fyrir vikið á höggi yfir pari samtals.
Frammistaða Mickelsons og Koepka kemur nánast eins og skrattinn úr sauðarleggnum í þetta skiptið. Mickelson hefur fimm sinnum sigrað á risamótum og Koepka fjórum sinnum. En upp á síðkastið var fátt sem benti til þess að þeir yrðu í baráttunni um sigurinn. Mickelson hefur einfaldlega ekki leikið það vel síðustu mánuði og var ónákvæmur í teighöggum í mótum á þessu ári. Koepka hefur glímt við meiðsli og var talið að hann þyrfti lengri tíma til að ná að sýna sitt besta á ný.
Mickelson verður 51 árs hinn 16. júní en aldrei hefur kylfingur sem náð hefur fimmtugu unnið risamót í golfi þótt nokkrir hafi komist nærri því. Julius Boros er sá elsti sem unnið hefur á einu risamótanna en hann var 48 ára þegar hann vann á PGA-meistaramótinu árið 1968.