Bandaríkjamaðurinn Phil Mickelson varð í kvöld elstur til að vinna eitt risamótanna í golfi þegar hann sigraði á PGA-meistaramótinu á Kiawah Island í Suður-Karólínu í Bandaríkjunum.
Mickelson er fimmtugur og verður raunar 51 árs í næsta mánuði. Julius Boros var 48 ára og fjögurra mánaða þegar hann vann sama mót, PGA-meistaramótið, árið 1968. Mickelson slær því metið nokkuð duglega.
Sigursælasti kylfingur frá upphafi, Jack Nicklaus, er sá elsti sem unnið hefur Masters en hann var 46 ára þegar hann vann Masters árið 1986. Old Tom Morris var einnig 46 ára þegar hann vann The Open Championship árið 1867 en fáir hafa haft jafn mikil áhrif á íþróttina og Tom Morris eldri sem var með puttana í bæði Old Course í St. Andrews sem og Prestwick vellinum.
Sá elsti sem unnið hefur Opna bandaríska meistaramótið er Hale Irwin en hann var 45 ára þegar hann vann árið 1990.
Aðstæður voru erfiðar þegar leið á daginn í dag og síðustu ráshóparnir léku í kringum parið. Mickelson var með eins höggs forskot fyrir lokadaginn á 7 undir pari. Hann lauk leik á 6 undir pari. Tveimur höggum á eftir Mickelson urðu Brooks Koepka frá Bandaríkjunum og Louis Oostuizen frá Suður-Afríku.
Mickelson var með tveggja högga forskot fyrir lokaholuna og landaði sigrinum af öryggi. Var raunar með þriggja högga forskot þegar tvær holur voru eftir.
Mickelson er í hópi sigursælustu kylfinga frá upphafi á risamótunum. Hann braut ísinn heldur seint þegar hann vann Masters árið 2004. Hafði þá þurft að þola merkimiðann sá besti sem ekki hefur unnið risamót, í nokkur ár. Hann vann nú risamót í sjötta skipti. Mickelson vann einnig Masters 2006 og 2010. Hann vann PGA-meistaramótið einnig árið 2005 og The Open vann hann árið 2013.
Mickelson vantar því einungis sigur á Opna bandaríska meistaramótinu til að ná slemmunni, Grand Slam. Mickelson hefur sex sinnum hafnað í 2. sæti á Opna bandaríska mótinu. Næsta risamót á árinu er einmitt Opna bandaríska mótið en það hefst 17. júní og Mickelson mætir þá til leiks með góðan meðbyr.
Mickelson jafnaði í kvöld við Sir Nick Faldo og Lee Trevino sem einnig unnu sex sinnum á risamótunum. Ellefu kylfingar hafa gert betur en Jack Nicklaus er með öruggt forskot í efsta sætinu með átján sigra.
Mickelson hefur sagt að hans mesta afrek á golfvellinum hafi verið að vinna The Open Championship því links-golf á strandvöllum Bretlandseyja hafi ekki átt að henta hans leikstíl.